20. apr. 2012

Gleðilegt sumar

Komu sumars var fagnað í Garðabæ í gær með hátíðleika og skemmtun í bland.
  • Séð yfir Garðabæ

Komu sumars var fagnað í Garðabæ í gær, á sumardeginum fyrsta, með hátíðleika og skemmtun í bland.

 

Dagskráin hófst með skátamessu í Vídalínskirkju þar sem Hafdís Bára Kristmundsdóttir, félagsforingi Vífils hélt hátíðarræðu. Nokkrir skátar fengu afhendar viðurkenningar fyrir skátastörf, bæði frá Skátafélaginu Vífli og frá Bandalagi íslenskra skáta en það var Bragi Björnsson, skátahöfðingi sem afhenti þær.

 

Að messu lokinni var gengið í skrúðgöngu að Hofsstaðaskóla. Skátarnir fóru fremstir í flokki með fánaborg og á hæla þeirra kom lúðrasveit Tónlistarskóla Garðabæjar. Fjölmargir Garðbæingar á öllum aldri gengu með.

 

Við Hofsstaðaskóla var boðið upp á skemmtun fyrir unga sem aldna og inni í skólanum var hið árlega kaffihlaðborð Vífils sem hátíðargestir kunnu vel að meta.

 

Starfsfólk og bæjarstjórn Garðabæjar óskar Garðbæingum og öðrum landsmönnum gleðilegs sumars.


Fleiri myndir eru á facebook síðu Garðabæjar.