18. apr. 2012

Listadagar barna og ungmenna

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ verða nú haldnir í fimmta sinn í apríl, dagana 19-28. apríl. Dagskráin spannar um eina og hálfa viku og undirbúningur er í fullum gangi í skólum bæjarins. Garðbæingar eru hvattir til að líta við í skólum bæjarins þessa daga og fylgjast með því skapandi starfi sem þar fer fram.
  • Séð yfir Garðabæ

Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ verða nú haldnir í fimmta sinn í apríl, dagana 19-28. apríl.  Dagskráin spannar um eina og hálfa viku og undirbúningur er í fullum gangi í skólum bæjarins.   Garðbæingar eru hvattir til að líta við í skólum bæjarins þessa daga og fylgjast með því skapandi starfi sem þar fer fram.  Ætlunin er að vekja athygli á því listræna starfi sem fer fram allt skólaárið með því að gera það sýnilegra þessa daga. Dagskrá listadaganna er aðgengileg hér á heimasíðu Garðabæjar.

,Hljómlist“

Þema listadaganna að þessu sinni er ,,HLJÓMLIST“ og mörg verkefni sem verða sýnd eða flutt á listadögunum taka mið af því.  Þemað tengist m.a. verkefni sem hófst sl. haust þegar leik- og grunnskólakennurum í Garðabæ var boðið að taka þátt í námsstefnu um nýsköpun og skapandi námsumhverfi barna. Í framhaldi af því fengu elstu leikskólabörnin og yngstu grunnskólabörnin að taka þátt í listasmiðjum þar sem viðfangsefnið var að búa til hljóðfæri úr ýmsum efnum.  Alls konar hljóðfæri voru búin til eins og hristur, blásturshljóðfæri o.fl. Afraksturinn verður sýndur á listadögunum þar sem börnin taka meðal annars þátt í skrúðgöngu miðvikudaginn 25. apríl og spila á hljóðfærin sín.

Sýningar á Garðatorgi

Á Garðatorgi verður sett upp samsýning leik- og grunnskólabarna og í göngugötunni á Garðatorgi verður hin árlega vorsýning myndlistarmanna úr Grósku sem opnar formlega á Sumardaginn fyrsta.  Í lautinni á Garðatorgi verða settar upp ,,hljóðfígúrur“ sem leik- og grunnskólar hafa búið til og setja þannig skemmtilegan svip á bæinn.  Í Bókasafni Garðabæjar verða ýmis listaverk eftir börn til sýnis og í Hönnunarsafni Íslands eru tvær áhugaverðar sýningar í gangi:  Fingramál og Sjálfsagðir hlutir.  Á sýnngunni Sjálfsagðir hlutir er starfrækt listasmiðja fyrir skólahópa á meðan á listadögunum stendur.


Þessi unga stelpa var mjög áhugasöm um listsýningu leik- og grunnskólabarna sem nú er til sýnis á Garðatorgi fyrir framan Bókasafnið.

Öflug listnámsbraut í FG

Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ verður hægt að skoða verk eftir nemendur á listnámsbraut á opnu húsi föstudaginn 20. apríl þar sem búið verður að setja upp verk á öllum hæðum og í öllum álmum skólans auk þess sem leiklistarbrautin sýnir stuttmyndir o.fl.  Nemendur í FG koma víða við og verða með ýmsar sýningar í Suðurhrauni, Ármúla, Víkinni sjóminjasafni og Grófarhúsinu.  

Söngleikur og tónleikar

Félagsmiðstöðin Garðalundur  og Garðaskóli hafa árlega sett upp söngleik og sýningar eru hafnar á söngleiknum ,,We Will Rock you“.  Síðustu sýningarnar eru haldnar á listadögunum og áhugasamir geta séð nánari upplýsingar um miðaverð og sýningartíma á heimasíðu Garðalundar, www.gardalundur.is  Í Tónlistarskóla Garðabæjar verða haldnir fjölmargir tónleikar nemenda í framhaldsáfanga og nánari upplýsingar um tímasetningu eru á heimasíðu skólans, tongar.is Blásarasveit tónlistarskólans leikur að venju í skrúðgöngu í hátíðardagskrá á Sumardaginn fyrsta.

Sameiginleg listadagahátíð

Miðvikudaginn 25. apríl verður haldin sameiginleg hátíð á Garðatorgi fyrir elstu börn leikskóla og nemendur í grunnskólunum. Nemendur fara í skrúðgöngu frá sínum skóla og mæta á Garðatorgið um kl. 10 þar sem Blásarasveit Tónlistarskólans tekur á móti þeim með fögrum tónum.  Á hátíðinni verður sungið, dansað og spilað saman.  Gói verður kynnir og hljómsveitin Blár Ópal tekur lagið.

Opið hús

Leikskólar í bænum verða með opið hús laugardaginn 28. apríl þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér leikskólanna og starf þeirra.  Í síðustu vikunni í apríl geta bæjarbúar einnig heimsótt skóla og skoðað þær sýningar sem þar eru á göngum og í stofum og allir eru velkomnir.  Hér var stiklað á stóru í upptalningu á því sem verður í boði á listadögunum en allir geta kynnt sér dagskrána hér á heimasíðunni.