Tveir frídagar að gjöf
Starfsfólk Garðabæjar fær tvo auka frídaga á launum, að gjöf vegna góðra starfa á undanförnum árum. Í bréfi sem Gunnar Einarsson bæjarstjóri sendi starfsmönnum í dag segir hann tilefnið vera góðan árangur í starfsemi bæjarins.
Í bréfinu vitnar Gunnar annars vegar í góða fjárhagsstöðu bæjarins sem kemur glöggt fram í nýsamþykktum ársreikningi. Hins vegar vitnar hann í þjónustukönnun sem fyrirtækið Capacent gerði í 16 stærstu sveitarfélögum landsins í október sl. en þar fær Garðabær hæstu einkunn allra sveitarfélaganna fyrir þjónustu.
Þakklátur starfsfólki
Gunnar segir gleðilegt að geta umbunað starfsfólki á þennan hátt. „Starfsmenn Garðabæjar hafa staðið þétt saman á undanförnum árum, tekið á sig skerðingar og hagræðingu en haldið áfram að veita íbúum afbragðs þjónustu eins og áður. Árangurinn er sá að við höfum getað dregið margar af hagræðingaraðgerðunum til baka, fjárhagur bæjarins er traustur og íbúar eru ánægðir með þjónustuna. Ég er mjög þakklátur öllu starfsfólki bæjarins fyrir þennan árangur og finnst mjög ánægjulegt að geta umbunað því fyrir fagmennsku sína og skilning. Við getum ekki greitt háar fjárhæðir úr bæjarsjóði en með þessu móti getum við sýnt starfsfólki okkar þakklæti með aðgerð sem ég vona að komi sem flestum vel.“
Víðtæk starfsemi
Starfsmenn Garðabæjar eru í allt um 600 talsins og vinna þeir samtals á 27 vinnustöðum, þ.á.m. í grunnskólum, leikskólum, íþróttamiðstöð, bókasafni og í Ráðhúsi bæjarins. Í tilefni dagsins var boðið upp á tertu á öllum vinnustöðum Garðabæjar í dag.