19. mar. 2012

Barna- og unglingastarf félaga styrkt

Bæjarstjóri Garðabæjar undirritaði nýlega samstarfssamninga við sjö íþrótta- og æskulýðsfélög í Garðabæ um stuðning bæjarins við starfsemi félaganna og við barna- og unglingastarf þeirra.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjóri Garðabæjar undirritaði nýlega samstarfssamninga við sjö íþrótta- og æskulýðsfélög í Garðabæ um stuðning bæjarins við starfsemi félaganna og við barna- og unglingastarf þeirra. Í samningunum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur bæjarins og viðkomandi félags.

Í samningunum er kveðið á um tilteknar fjárhæðir sem Garðabær styrkir félögin um, einkum til barna- og unglingastarfs. Félögin skuldbinda sig á móti til að sjá til þess að leiðbeinendur hafi tilskylda menntun eða þekkingu og til að halda uppi gæðum í starfinu. Félögunum er líka gert að skila inn áætlun um helstu verkefni og áherslur í barna- og unglingastarfi. Í samningi við Stjörnuna er einnig veitt framlag til að styðja við meistaraflokka félagsins til að stuðla að góðum árangri liðsins á landsvísu.

Félögn sem samið var við eru: Ungmennafélagið Stjarnan, Skátafélagið Vífill, Taflfélag Garðabæjar, Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, Hestamannafélagið Andvari, Golfklúbburinn Oddur og Tennisfélag Garðabæjar.

Samningarnir voru undirritaðir í Ásgarði á sama tíma og afreksstyrkir til íþróttamanna voru afhentir.

 

Frá undirritun samninga við íþrótta- og æskulýðsfélög 2012

Á myndinni eru frá vinstri: 
Jóhann Ingimundarson, formaður Stjörnunnar
Hafdís Bára Kristmundsdóttir, félagsforingi Vífils
Páll Sigurðsson, formaður Taflfélags Garðabæjar
Guðmundur Oddsson, formaður GKG
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri
Ingibjörg Guðrún Geirsdóttir, formaður Andvara
Emil Emilsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds og
Heimir Þorsteinsson, formaður Tennisfélags Garðabæjar