16. mar. 2012

Styrkir til afreksíþrótta

Átta íþróttamenn fengu í gær afhenta styrki úr afrekssjóði Íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Afreksstyrkjum er úthlutað árlega til íþróttamanna sem hafa náð framúrskarandi árangri á landsvísu.
  • Séð yfir Garðabæ

Átta íþróttamenn fengu í gær afhenta styrki úr afrekssjóði Íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar (ÍTG). Afreksstyrkjum er úthlutað árlega til íþróttamanna sem hafa náð framúrskarandi árangri á landsvísu.

 

Samtals voru veittir styrkir að fjárhæð 800 þúsund krónur. Hæsta styrkinn, kr. 350.000 hlaut Ragnheiður Ragnarsdóttir, sundkona í KR en hún stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum í London í sumar. Íþróttamenn Garðabæjar 2011, þau Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Garðar Jóhannsson, sem bæði spila knattspyrnu með Stjörnunni fengu 100 þúsund krónur hvort.

Aðrir sem hlutu styrki eru:

  • Guðjón Henning Hilmarsson, golfari í GKG
  • Jakob Helgi Bjarnason, skíðamaður í Ármanni
  • Freydís Halla Einarsdóttir, skíðakona með Skíðafélagi Dalvíkur
  • Björg Gunnarsdóttir, frjálsíþróttakona í ÍR og
  • Hilmar Örn Jónsson, skylmingamaður í FH.

Til að hljóta styrk þurfa íþróttamenn annað hvort að eiga lögheimili í Garðabæ eða stunda íþrótt með íþróttafélagi í Garðabæ.


Styrkþegar afreksstyrkja 2012

Sigurður Guðmundsson, formaður ÍTG lengst til vinstri og Gunnar Einarsson bæjarstjóri lengst til hægri í fríðum hópi afreksíþróttafólks


Ragnheiður Ragnarsdóttir, 28 ára, sundkona í KR

Ragnheiður stefnir á Ólympíuleikana í London í ágúst á þessu ári. Ragnheiður sýndi það á HM 50 í sumar að hún á góða möguleika en þar náði hún tíma sem er aðeins um 3/10 úr sekúndu frá A-lágmarki á Ólympíuleikana og skilaði henni í 21. sæti af um 100 keppendum á HM.
Ragnheiður er margfaldur íslandsmeistari og methafi í sínum sundgreinum og frábær fyrirmynd.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, 23 ára, knattspyrnukona í Stjörnunni

Gunnhildur Yrsa var kjörinn íþróttakona ársins 2011 hjá Garðabæ. Hún er fyrirliði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu í Stjörnunni sem náði þeim árangri á árinu að vinna fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í knattspyrnu í meistaraflokki, auk þess að vinna Lengjubikar kvenna. Gunnhildur Yrsa var kjörinn besti leikmaður keppnistímabilsins 2011 af leikmönnum PEPSI-deildar kvenna og var valin í úrvalslið deildarinnar bæði í fyrri og síðari hluta mótsins. Hún var jafnframt valinn besti leikmaður síðari hluta PEPSI-deildarinnar. Gunnhildur Yrsa er í A-landsliði Íslands í knattspyrnu.

Garðar Jóhannsson, 31 árs, knattspyrnumaður í Stjörnunni


Garðar var kjörinn íþróttakarl ársins 2011 hjá Garðabæ. Á ný afstaðinni leiktíð spilaði Garðar 21 leik af 22 í Pepsí deildinni og skoraði 15 mörk. Fyrir þessa frammistöðu hlaut hann Gullskóinn eftirsótta en þann heiður hlýtur sá leikmaður sem skorar flest mörk í íslandsmóti. Einnig var Garðar valinn í lið ársins ásamt tveimur öðrum leikmönnum Stjörnunnar.

Guðjón Henning Hilmarsson, 24 ára, golfari í GKG

Guðjón Henning er landsliðsmaður í golfi. Hann varð fjórði á Eimskipamótsröðinni 2011 og sigraði á öðru mótinu í þeirri mótaröð. Hann spilaði í lokaráshóp á lokadeginum á Íslandsmótinu í höggleik og spilaði fyrir landsliðið á Evrópumóti landsliða, en liðið er skipað sex leikmönnum.
Guðjón Henning var valinn í A-hóp landsliðsins í nýju skipulagi þess í janúar 2012.

Jakob Helgi Bjarnason, 17 ára, skíðamaður Skíðafélagi Dalvíkur

Jakob Helgi hefur stundað skíðaæfingar síðan hann var 9 ára gamall. Sumarið 2010 var hann fyrst valinn í A-landslið Íslands á skíðum, þá 14 ára gamall. Jakob Helgi var valinn sem fulltrúi Íslands á Ólympíuleika unglinga í Innsbruck í Austurríki en Ísland hafði aðeins leyfi til að senda einn einstakling af hvoru kyni. Í vetur verður Jakob við æfingar og keppni jafnt hérlendis sem erlendis. Hann stefnir á þátttöku á vetrar Ólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi 2014.

Freydís Halla Einarsdóttir, 18 ára, skíðakona með skíðadeild Ármanns


Freydís Halla hefur æft bæði knattspyrnu og skíði og hampað Íslandsmeistaratitlum í báðum greinum. Á árinu sem leið var Freydís Halla Einarsdóttir bæði í A landsliði og í unglingalandsliði Skíðasamband Íslands í alpagreinum.Hún tók þátt í tveimur stórmótum erlendis, Heimsmeistaramóti unglinga og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Á Heimsmeistaramóti unglinga náði Freydís öðru sæti í stórsvigi í flokki 15-16 ára stúlkna. Á heimavelli vann hún einnig tvo Íslandsmeistaratitla. Á Íslandsmeistaramóti fullorðinna varð hún í 3. sæti í svigi og náði 2. sæti í samhliðasvigi. Hún sigraði ennfremur á nokkrum bikarmótum SKI þ.m.t. fyrsta bikarmóti SKÍ þar sem hún sigraði í stórsvigi og í samanlagðri keppni í svigi og stórsvigi og vann því Helgubikarinn.

Björg Gunnarsdóttir, 18 ára, hlaupari með frjálsíþróttadeild ÍR


Björg er í unglingalandsliði Íslands í 400 m og 800 m hlaupum. Hún er í afrekshópi ungra og framúrskarandi efnilegra frjálsíþróttamanna hjá ÍR. Björg varð Íslandsmeistari fullorðinna í 400 m hlaupi árið 2011 og varð sigurvegari í 800 m í bikarkeppnum 3 síðustu ár. Hún hlaut 3. sæti í 400 m hlaupi á stærsta unglingamóti Norður –Evrópu sem fram fór í Gautaborg á síðasta ári.
Björg hefur verið í stöðugri og góðri framför síðustu árin.


Hilmar Örn Jónsson, 18 ára, skylmingadeild FH

Hilmar Örn byrjaði að æfa skylmingar tíu ára gamall og hefur verið lykilmaður í landsliði undir 18 ára og nú undir 21 árs. Hilmar vann það einstaka afrek að verða Íslandsmeistari í U18, U21, opna flokknum og í liðakeppni. Hann var um leið fyrstur Íslendinga til að vinna fjórfalt. Hilmar varð Norðurlandameistari Í U18 á árinu. Hann var einnig í A-liði Íslands sem varð Norðurlandameistari í liðakeppni. Hann var í 27. sæti á Heimsmeistaramóti ungmenna þar sem yfir 800 hundruð keppendur tóku þátt, sem telst vera mjög góður árangur.