17. feb. 2012

Vel heppnuð Þorravaka

Menningarkvöld Kvennakórs Garðabæjar, sem að þessu sinni bar yfirskriftina Þorravaka, var haldið fimmtudagskvöldið 9. febrúar sl. í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Þorravakan hófst á atriði frá Tónlistarskóla Garðabæjar en það voru þeir Davíð Þór Sigurðsson og Aron Andri Magnússon, nemendur í rafgítarleik,
  • Séð yfir Garðabæ

Menningarkvöld Kvennakórs Garðabæjar, sem að þessu sinni bar yfirskriftina Þorravaka, var haldið fimmtudagskvöldið 9. febrúar sl. í  safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Þorravakan hófst á atriði frá  Tónlistarskóla Garðabæjar en það voru þeir Davíð Þór Sigurðsson og Aron Andri Magnússon, nemendur í rafgítarleik, sem léku nokkur lög og heilluðu gesti með flottri frammistöðu. Kvennakór Garðabæjar söng þá nokkur íslensk lög, m.a. þrjú lög eftir Jónas Tómasson við ljóð Þórarins Eldjárns um Heimskringlu, vorið og öfugumeginframúrstefnu, þar sem Þórarinn leikur sér með orðin og úr verður einstaklega kómískur og skemmtilegur texti.

 

Bæjarlistamaður Garðabæjar og fleiri góðir gestir

Tónlistin hélt áfram að óma því á eftir söng kórsins steig á stokk bæjarlistamaður Garðabæjar, Ómar Guðjónsson, djassgítarleikari með meiru. Með Ómari léku þeir Þorvaldur Þór á trommur og Guðmundur Óskar á bassa. Djasstríóið heillaði svo sannarlega gesti kvöldins með spilagleði sinni og hæfileikum en þeir félagar léku bæði íslenska og erlenda „standarda“. Í seinni hluta djassins kynnti Ómar til sögunnar leynigest kvöldsins, bróður sinn Óskar Guðjónsson, saxófónleikara og náðu þeir að skapa einstaklega skemmtilega og notalega stemningu þetta kvöld. Ræðumaður kvöldsins var Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og Útsvars-snillingur. Vilhjálmur sló á létta strengi í máli sínu um konur, karla og samskipti kynjanna og skemmti gestum með sögum og ljóðum, enda Vilhjálmur einstaklega víðlesinn maður og fróður.

 

Söngur á konudaginn 19. febrúar

Næsta verkefni kvennakórsins er söngur í guðsþjónustu á konudaginn í Vídalínskirkju sem jafnframt er útvarpað beint á Rás1. Hægt er að fylgjast með starfi kórsins á facebook og á heimasíðunni  www.kvennakor.is