18. jan. 2012

Garðabær meðal fimm bestu

Vefur Garðabæjar er einn af fimm bestu sveitarfélagavefjum landsins skv. nýrri úttekt á opinberum vefjum
  • Séð yfir Garðabæ

Vefur Garðabæjar var einn af fimm vefjum sveitarfélaga sem kom til greina í valinu um besta sveitarfélagavefinn sem tilkynnt var um í dag. Valið fór fram í kjölfar úttektar á opinberum vefjum sem framkvæmd var í fjórða sinn á árinu 2011, en niðurstöður hennar voru kynntar í dag, miðvikudaginn 18. janúar 2012.

 

Í úttektinni eru vefir alls 276 opinberra stofnana og sveitarfélaga skoðaðir og metnir samkvæmt fyrirfram ákveðnum mælikvörðum. Þeir fimm vefir sem skoruðu hæst, annars vegar í flokki ríkisstofnana og hins vegar í flokki sveitarfélaga voru svo skoðaðir af dómnefnd sem lagði huglæt mat á notagildi vefsins, útlit og almenna upplifun af að nota hann.

Gaman er að geta þess að á kynningu á niðurstöðunum var útfærsla Garðabæjar á því hvernig hægt er að greiða hvatapeninginn beint inn á greiðsluseðla tekin sem dæmi um framúrskarandi vefþjónustu.


Í flokki sveitarfélaga voru það vefir Akureyrar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness sem komu til greina sem besti vefurinn en fyrir valinu varð nýr og glæsilegur vefur Akureyrarbæjar.  Í flokki ríkisstofnana var vefur Tryggingastofnunar valinn besti vefurinn.

 

Niðurstöður úttektarinnar eru aðgengilegar á vefnum www.ut.is.  

Frétt um fimm bestu vefina: http://www.ut.is/konnun2011/bestu/