7. jún. 2023

Ný fimm ára deild við Sjálandsskóla

Gott tækifæri til að brúa bil milli skólastiga

Deildin tekur til starfa í haust og innritun er hafin. Starfið í leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og börnin taka þátt.

  • Ný fimm ára deild við Sjálandsskóla
    Deildin tekur til starfa í haust og innritun er hafin. Starfið í leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og börnin taka þátt.

„Vinátta er öllum mjög mikilvæg en er ekki öllum meðfædd. Við þurfum að læra hvernig við getum verið góðir vinir og í vetur ætlum við að læra um allar þessar óskráðu reglur um vináttu, félagsfærni og samvinnu,“ segir Elín Ósk Þorsteinsdóttir, leikskólastjóri nýrrar fimm ára leikskóladeildar í Sjálandsskóla. Deildin tekur til starfa í haust og innritun er hafin. Þar sem leikskóladeildin er í sama húsnæði og grunnskólinn Sjáland veitir það góð tækifæri til að brúa bilið á milli skólastiga. Starfið í leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og börnin taka þátt.

„Við ætlum að vinna í góðri samvinnu með grunnskólanum í Sjálandsskóla og taka þátt í skólasamsöng á hverjum morgni ásamt því að efla vináttu milli bekkja,“ segir Elín Ósk sem er reynslumikill leikskólakennari og hefur meðal annars verið sérkennslustjóri hér í Garðabæ á leikskólanum Kirkjubóli og aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Sunnuhvoli.

Foreldrum barna í Garðabæ stendur til boða að innrita fimm ára börn í Sjálandsskóla, en Garðabær hefur um áraraðir rekið slíka deild við Flataskóla með góðum árangri. Fimm ára deild í Flataskóla er ekki valkostur á næsta ári vegna endurbóta á húsnæði skólans.

„Sjálandsskóli er einstaklega fallegur grunnskóli þar sem aðgangur er að sundlaug, íþróttasal, textílstofu, smíðastofu, bókasafni, tónlistastofu o.fl. sem við ætlum að nýta til hins ítrasta.
Við ætlum einnig að nýta okkur fallegt umhverfi skólans svo sem fjöru- og menningarferðir,
náttúrskoðun og upplifanir af öllu tagi.“ segir Elín.

Börnin munu vinna í gegnum leik og læra meðal annars jóga, hugarfrelsi, bóklestur, sammvinnuspilun og markmiðasetningu að ógleymdum vinastundum. 

Áhersla skólans verður á gildin:

  • ábyrgð
  • framsýni
  • virðingu
  • samvinnu
  • jafnvægi