Ný fjölnota félagsaðstaða í Lambamýri opnuð
Ný fjölnota félagsaðstaða í Lambamýri á Álftanesi verður opnuð með formlegum hætti, miðvikudaginn 28. janúar klukkan 13.30. Aðstaðan mun m.a. hýsa félagsstarf eldri borgara á Álftanesi og Félag eldri borgara á Álftanesi (FEBÁ) mun hafa aðsetur í nýju húsnæði. Við formlega opnun verður endurnýjaður samstarfssamningur Garðabæjar og FEBÁ undirritaður.
Ný fjölnota félagsaðstaða í Lambamýri á Álftanesi verður opnuð með formlegum hætti, miðvikudaginn 28. janúar klukkan 13.30. Aðstaðan mun m.a. hýsa félagsstarf eldri borgara á Álftanesi og Félag eldri borgara á Álftanesi (FEBÁ) mun hafa aðsetur í nýju húsnæði. Við formlega opnun verður endurnýjaður samstarfssamningur Garðabæjar og FEBÁ undirritaður.
Sólveig Valgeirsdóttir er forstöðumaður félagsmiðstöðva eldra fólks hjá Garðabæ. Hún segir þessa nýju félagsaðstöðu á Álftanesi vera frábæra viðbót inn í það sem í boði er fyrir eldra fólk í Garðabæ.
„Það er mikilvægt að bjóða upp á vettvang fyrir eldra fólk til að koma saman, eiga í samskiptum og hafa tækifæri til að skapa umgjörð um gott félagsstarf þar sem markmiðið er m.a. að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun,“ segir Sólveig.
Fólk er spennt að sjá þessa nýju aðstöðu komast á laggirnar að hennar sögn. „Það er mikil ánægja meðal íbúa að komið sé að því að opna nýja aðstöðu sem mun án efa efla starfið á Álftanesi til muna.“
Aðspurð um það sé á döfinni segir Sólveig að nú séu spennandi tímar fram undan og mörg tækifæri fyrir hendi til að efla starfið sem nú þegar er í gangi á Álftanesi. „Daglega hittist hópur og tekur góða göngu um nesið. Og tvisvar sinnum í viku er boðið upp á vatnsleikfimi auk þess sem einhverjir mæta í líkamsrækt og handavinnuhópur hittist reglulega. Á döfinni er að bjóða upp á stólajóga og félagsvist og það verður gaman að vinna þetta áfram í samstarfi við notendur.“
Fyrst um sinn verður opið frá mánudegi til fimmtudags, frá klukkan 10:15 til 15:15. „Við höfum fengið tvo starfsmenn til liðs við okkur sem munu taka vel á móti gestum. Boðið verður upp á frítt kaffi og te og aðrar veitingar til sölu.“
Félagsaðstaðan í Lambamýri verður opnuð 26. janúar klukkan 10:15 en sem fyrr segir verður formleg opnun þann 28. janúar klukkan 13.30 og eru öll velkomin.
