Ný fræðsluskilti um fuglalíf við Urriðavatn
Við Urriðavatn í Garðabæ er að finna fjölmörg ný fræðsluskilti um fuglalíf við vatnið. Uppsetning fræðsluskiltanna er samstarfsverkefni Toyota á Íslandi og Garðabæjar.
-
Vígsla fræðsluskilta um fuglalíf við Urriðavatn
Við Urriðavatn í Garðabæ er að finna fjölmörg ný fræðsluskilti um fuglalíf við vatnið. Uppsetning fræðsluskiltanna er samstarfsverkefni Toyota á Íslandi og Garðabæjar. Þriðjudaginn 17. maí voru fræðsluskiltin vígð með formlegum hætti þegar fulltrúar frá Toyota, úr bæjarstjórn Garðabæjar, úr nefndum bæjarins og úr stjórn íbúasamtaka Urriðaholts gengu umhverfis vatnið. Fuglalíf er fjölskrúðugt og umhverfið friðsælt þó byggðin í Urriðaholti og Kauptúni sé nærri. Á hinum nýju fræðsluskiltum er fróðleikur um flórgoða, álft, skúfönd, þúfutittling, hrossagauk, stelk, stokkönd, heiðlóu, tjald, rauðhöfðaönd, lóuþræl og skógarþröst en allt eru það fuglategundir sem sjást við vatnið. Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, setti saman textann á fræðsluskiltunum og Daníel Bergmann fuglajósmyndari tók myndirnar.
,,Umhverfið í kringum Urriðavatn er alveg einstakt og mikil lífsgæði fólgin í því fyrir íbúa í Garðabæ að geta notið útivistar í slíkri náttúruperlu. Það er þýðingarmikið að geta miðlað fróðleik um umhverfið til þeirra sem eiga leið í kringum vatnið og vakið athygli á því fjölbreytta fuglalífi sem þar er að finna. Ekki síst ætti þetta að geta nýst í umhverfisfræðslu leik- og grunnskóla. Samstarf Garðabæjar við Toyota hefur líka verið mjög gott í gegnum árin en áður höfum við átt samstarf um endurheimt votlendis í Garðabæ og meðal annars við Urriðavatn. Það er því ánægjulegt að Toyota sem er staðsett í næsta nágrenni við Urriðavatn hafi komið að þessu verkefni við að setja upp fræðsluskiltin og leggja þannig sitt af mörkum til samfélagsins.“ sagði Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar þegar skiltin voru vígð.
„Toyota á Íslandi hefur stutt við skógrækt og þar með kolefnisjöfnum með beinum hætti í meira en 3 áratugi. Það var okkur því fagnaðarefni að fá að styðja við endurheimt votlendis við Urriðavatn
sem er aðeins steinsnar frá okkur í Kauptúni.
Megnið af þeim skurðum sem við sjáum víða um land eru gagnslausir eða til lítils gagns en losa mest af þeim gróðurhúsalofttegundum sem Íslendingar bera ábyrgð á. Við sjáum svo í dag að þessi litla spilda við Urriðavatn er að verða sjálfri sér lík aftur þegar mýrin er að myndast á ný,“ sagði Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi.
Falleg gönguleið í kringum Urriðavatn
Stígurinn í kringum Urriðavatn er auðveld gönguleið og hægt að ganga úr hverfinu í Urriðaholti eða frá bílastæðum við Kauptún þar sem Toyota á Íslandi er til húsa ásamt fleiri fyrirtækjum, verslunum og þjónustuaðilum.
Urriðavatn og votlendið umhverfis það er falleg landslagsheild með margslunginn gróður og dýralíf. Hrauntanginn sem gengur út í vatnið gefur umhverfinu afar fallegan og sterkan svip og er skjól fyrir fjölbreytt fuglalíf. Í og við vatnið má meðal annars finna talsvert af urriða, smádýrum og háplöntum.
Mikil áhersla er lögð á viðhald og vernd Urriðavatns og votlendisins í kringum það með sjálfbærum vatnsbúskap (blágrænum ofanvatnslausnum), sem er nýjung í skipulagi byggðar á Íslandi. Þessi lausn felst í því að regnvatn er leitt stystu leið niður í jarðveginn af yfirborði gatna, bílastæða og þaka. Meðfram götunum liggja grasi grónar, vatnrásir sem taka við regnvatninu. Þaðan rennur vatnið niður í jarðveginn og seitlar smám saman út í Urriðavatn. Náttúrulegu rennsli í Urriðavatn er þannig viðhaldið í hringrás, í stað þess að leiða það út í sjó gegnum niðurfallslagnir.