Ný útgáfa af Þjónustugátt Garðabæjar
Ný útgáfa af Þjónustugátt Garðabæjar hefur verið tekin í notkun. Viðmótið í nýju þjónustugáttinni er notendavænna en í eldri útgáfu og styður nú betur farsíma og önnur snjalltæki og því auðveldara að nota þjónustugáttina í síma en áður.
-
Skjáskot úr Þjónustugátt Garðabæjar
Ný útgáfa af Þjónustugátt Garðabæjar hefur verið tekin í notkun. Viðmótið í nýju þjónustugáttinni er notendavænna en í eldri útgáfu og styður nú betur farsíma og önnur snjalltæki og því auðveldara að nota þjónustugáttina í síma en áður.
Notendavænna viðmót
Í Þjónustugátt Garðabæjar er hægt að nálgast umsóknir Garðabæjar á rafrænu formi. Umsóknaform í nýju þjónustugáttinni eru notendavænni en áður og nú er komin leit þar sem hægt er að leita að umsóknum eftir efnisorðum. Jafnframt er hægt að skoða umsóknir undir tilteknum málaflokkum. Umsóknum hefur verið þrepaskipt til að gera þær aðgengilegri og leiða þannig viðskiptavininn áfram í gegnum þrepin.
Nýtt og aðgengilegra viðmót er einnig að finna í þeim hluta þjónustugáttarinnar sem fagaðilar, s.s. byggingarstjórar, hönnuðir og iðnmeistarar, nota og á að auðvelda aðgerðir og staðfestingar á verkum þeirra.
Undir ,,Málin mín“ geta einstaklingar séð mál sem myndast úr umsóknum viðkomandi. Hægt er að smella á einstök mál til að sjá umsóknir og fylgigögn þeirra. Þar sem mál eru enn skráð í vinnslu er með auðveldum hætti hægt að senda inn skilaboð til Garðabæjar í samskiptaglugga og einnig er hægt að senda inn viðbótarfylgiskjöl ef á þarf að halda.
Innskráning í þjónustugáttina
Nýtt innskráningarkerfi island.is er notað til að fara inn í þjónustugáttina og þar geta notendur núna valið úr þremur leiðum til að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum:
- Með rafrænum skilríkjum í síma
- Með auðkennisappinu
- Með skilríki á korti
Jafnframt er núna hægt að skrá sig inn fyrir hönd annarra í gegnum umboðsmannakerfi island.is. Þá getur t.d. einstaklingur sem skráir sig inn á Þjónustugátt Garðabæjar gefið öðrum umboð til að fara inn í þjónustugáttina fyrir sína hönd í tiltekin tíma. Tenging inn í umboðsmannakerfið er í gegnum hlekk í Þjónustugátt Garðabæjar.
Athugið að núna er ekki lengur hægt að skrá sig inn með Íslykli þar sem hann hætti í notkun 1. september 2024.
Betrumbætt þjónusta með stafrænni þróun
Áfram verður unnið að því að þróa Þjónustugátt Garðabæjar og gera hana enn betri til að hún nýtist íbúum og öðrum viðskiptavinum sem best. Ný og uppfærð útgáfa af þjónustugáttinni er liður í bættri þjónustu Garðabæjar með áframhaldandi stafrænni þróun.
Íbúar eða aðrir sem þurfa aðstoð með umsóknir eða annað í þjónustugáttinni geta leitað til þjónustuvers Garðabæjar á Garðatorgi 7, s. 525 8500. Þjónustugáttin er sem stendur eingöngu á íslensku en einstaka umsóknir eru til í enskri útgáfu. Flestir vafrar bjóða upp á að stilla tungumál og með því er hægt að breyta um tungumál í gáttinni.
Ábendingar um virkni þjónustugáttarinnar má senda á netfang Garðabæjar, gardabaer@gardabaer.is