11. okt. 2024

Nýja brúin komin í gagnið

Framkvæmdum við endurnýjun á göngubrúnni við Vífilsstaðavatn er nú lokið. Við fengum Lindu Björk Jóhannsdóttur, verkefnastjóra umhverfismála, til að segja okkur frá brúnni sem er hluti af útivistastíg sem liggur umhverfis vatnið.

 

Framkvæmdum við endurnýjun á göngubrúnni í friðlandi við Vífilsstaðavatn er lokið og hefur nýja brúin verið tekin í notkun. Upprunalega var umrædd brú smíðuð á staðnum árið 1994 af þáverandi smið bæjarins, Guðmundi Jónssyni. Sumarið 2022 kom í ljós að kominn var tími á endurnýjun brúarinnar og var ráðist í framkvæmdina í lok ágúst.

Framkvæmdin var á vegum Garðabæjar og Umhverfisstofnunar. Sameiginleg umsókn Garðabæjar og Umhverfisstofnunar vegna endurnýjunar á brúnni hlaut styrk úr landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru.

Linda Björk Jóhannsdóttir, verkefnastjóri umhverfismála, kíkti með okkur á nýju brúna.

Friðland í þéttbýli

Umhverfis Vífilsstaðavatn er útivistarstígur sem er um 2,6 km að lengd, þar af er göngubrúin vestan við vatnið.

Vífilsstaðavatn og nágrenni hefur löngum verið einn vinsælasti viðkomustaður höfuðborgarsvæðisins meðal náttúruunnenda enda um mikla útivistaparadís í þéttbýli að ræða. Svæðið var friðlýst árið 2007 með það að markmiði að vernda vatnið, lífríki þess og nánasta umhverfi ásamt því að treysta svæðið sem útivistarsvæði.

IMG_0376_1728477415525

Mikil áhersla hefur verið lögð á að gera svæðið aðgengilegt fyrir alla. Fræðsluskiltum hefur verið komið upp á svæðinu um lífríki vatnsins, fugla við vatnið og gróður. Hornsílin í vatninu eru heimsfræg, en þau eru sérstök að því leyti að þau skortir kviðgadda. Fuglalífið er fjölskrúðugt, töluvert af andfuglum verpa við vatnið. Flórgoðinn hin síðari ár og mófuglar umhverfis það. Þá eru útivistabekkir meðfram stígnum og þakskýli. Gamla bryggjan var endurgerð vestan við vatnið árið 2005 til að auðvelda aðgengi fatlaðra. Bryggjan var endurbyggð á gömlu bryggjustæði.