18. des. 2018

Nýr forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs

Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

  • Eiríkur Björn Björgvinsson
    Eiríkur Björn Björgvinsson

Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar. Alls bárust 15 umsóknir um starfið. Farið var yfir allar umsóknir og lagt mat á umsækjendur út frá þeim menntunar- og hæfniskröfum sem tilgreindar voru í auglýsingu. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem haldinn var í dag, 18. desember var samþykkt tillaga bæjarstjóra um að ráða Eirík Björn í umrætt starf.

Eiríkur Björn er með diplóma próf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands, diplóma próf í stjórnun og rekstri fræðslustofnana frá Kennaraháskóla Íslands, diplómapróf í stjórnun og uppbyggingu íþróttamannvirkja frá Íþróttaháskólanum í Köln og íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Eiríkur Björn stundar nú meistarnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Eiríkur Björn býr yfir víðtækri stjórnunarreynslu. Hann var bæjarstjóri Akureyrar frá 2010 – 2018, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs frá 2004 – 2010, bæjarstjóri Austur – Héraðs frá 2002 – 2004, deildarstjóri íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar frá 1996 – 2002 og æskulýðs- og íþróttafulltrúi Egilsstaðabæjar frá árinu 1994 – 1996.

Eiríkur Björn tekur við starfinu af Margréti Björk Svavarsdóttur.