30. ágú. 2018

Nýr persónuverndarfulltrúi Garðabæjar

Telma Halldórsdóttir lögmaður hefur verið ráðin persónuverndarfulltrúi Garðabæjar.  Persónuverndarfulltrúi Garðabæjar mun vinna að því að fylgja eftir nýrri persónuverndarstefnu Garðabæjar sem var samþykkt í sumar.

  • Telma Halldórsdóttir

Telma Halldórsdóttir lögmaður hefur verið ráðin persónuverndarfulltrúi Garðabæjar.  Persónuverndarfulltrúi Garðabæjar mun vinna að því að fylgja eftir nýrri persónuverndarstefnu Garðabæjar sem var samþykkt í sumar og gildir skv. nýjum lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.  Persónuverndarstefna Garðabæjar gildir fyrir allar stofnanir og nefndir á vegum Garðabæjar.  

Telma Halldórsdóttir er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og er einnig MA í alþjóðalögum og viðskiptadeilum frá Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna í Kostaríka.  Telma hefur síðastliðið ár gegnt störfum lögfræðings hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Í starfi sínu þar hefur hún meðal annars stýrt innleiðingu á nýrri persónuverndarlöggjöf hjá sveitarfélögum og samið leiðbeiningar um hina Evrópsku persónuverndarreglugerð (reglugerð ESB nr. 679/2016) sem hefur nú verið innleidd á Íslandi skv nýju lögunum.  Einnig skipulagði Telma persónuverndardag sveitarfélaganna í samvinnu við Persónuvernd og í starfi sínu hjá Sambandinu hefur hún staðið fyrir fjölda námskeiða og kynninga fyrir stjórnendur og starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra. Telma hefur leitt vinnu lögfræðingahóps um persónuvernd hjá sveitarfélögum og unnið með upplýsingatæknihóp sveitarfélaga um persónuvernd. 

Telma hefur einnig víðtæka reynslu af lögmannsstörfum og starfaði sem lögmaður og eigandi hjá ADVEL lögmönnum á árunum 2007-2017 þar sem hún stýrði m.a. Evrópuréttar- og samkeppnissviði þeirra.  Á árunum 2004-2007 starfaði Telma sem yfirlögfræðingur hjá EFTA.   

Telma tekur til starfa hjá Garðabæ í byrjun september.