17. júl. 2025

Nýr sérhæfður grunnskóli fyrir einhverf börn í undirbúningi í Garðabæ

Garðabær og Jónsvegur ehf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um stofnun nýs sérhæfðs grunnskóla fyrir einhverf börn. Stefnt er að því að skólinn hefji starfsemi haustið 2026 og taki á móti allt að fimm nemendum á fyrsta starfsári.

  • Sérhæfður skóli fyrir börn með einhverfu í undirbúningi
    Stefnt er að því að skólinn hefji starfsemi haustið 2026 og taki á móti allt að fimm nemendum á fyrsta starfsári.

Skólinn verður sjálfstætt starfandi en starfar í nánu samstarfi við Garðabæ.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Garðabær mun finna skólanum viðeigandi húsnæði og sinna eftirlitshlutverki sínu í samræmi við lög og reglugerðir. Jónsvegur ehf. mun annast rekstur skólans og mótun kennslufræðilegrar stefnu í takt við þarfir nemenda.

„Það er okkur í Garðabæ mikilvægt að fjölbreyttum þörfum barna sé mætt af fagmennsku og umhyggju. Þessi viljayfirlýsing markar mikilvægt skref í átt að auknu skólaúrvali og bættri þjónustu við börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

„Við trúum því að öll börn eigi rétt á námi sem tekur mið af þeirra styrkleikum og þörfum. Skólinn mun byggja starf sitt á TEACCH-hugmyndafræðinni og unnið verður með taugaþroskalega og tengslamiðaða nálgun þar sem öruggt umhverfi og traust sambönd eru undirstaða náms og þroska. Skynúrvinnsla verður mikilvægur þáttur í allri starfsemi skólans og áfallamiðuð nálgun jafnframt leiðarljós í öllu starfi. Við erum þakklát fyrir framsýni og metnað Garðabæjar og stuðning við raunverulegt val foreldra,“ segir Vigdís Gunnarsdóttir hjá Jónsvegi ehf.

Undirbúningur hjá Jónsvegi í samstarfi við Garðabæ er hafin þar sem unnið er að finna húsnæði,  afla fjármögnunar og nauðsynlegra leyfa í samræmi við lög og reglugerðir um stofnun sjálfstætt starfandi skóla. Í þeirri vinnu kemur til samhliða ráðgjöf frá fagráði og bakhjörlum skólans, sem er hópur fagfólks og aðila sem styðja hugmyndafræði skólans og munu veita ráðgjöf við stofnun og rekstur hans.