22. ágú. 2019

Nýr skólastjóri Hofsstaðaskóla

Hafdís Bára Kristmundsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Hofsstaðaskóla

  • Hafdís Bára Kristmundsdóttir skólastjóri Hofsstaðaskóla
    Hafdís Bára Kristmundsdóttir skólastjóri Hofsstaðaskóla

Hafdís Bára Kristmundsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Hofsstaðaskóla. Alls bárust átta umsóknir um starf skólastjóra Hofsstaðaskóla.

Hafdís Bára lauk B.Ed gráðu í kennarafræðum árið 1986. Hún lauk Dipl.Ed í stjórnun menntastofnana árið 2006 ásamt viðbótar námi í stjórnun. Hún hóf störf í Hofsstaðaskóla 2006 sem deildarstjóri yngri deilda og tók við stöðu aðstoðarskólastjóra í mars 2007. Áður starfaði hún við Garðaskóla sem kennari, fagstjóri og deildarstjóri frá árinu 1988. Hafdís Bára hefur haft aðkomu að rekstri, stjórnun og starfsmannahaldi í gegnum störf sín sem aðstoðarskólastjóri ásamt þátttöku í ýmsum faglegum verkefnum. Hún hefur verið virk í félagsstarfi og situr í stjórn Skólastjórafélags Reykjaness.

Í Hofsstaðaskóla eru 586 nemendur í 1. til 7. bekk og þar starfa um 90 starfsmenn, þéttur og metnaðarfullur starfsmannahópur. Í skólanum er lögð áhersla á leiðbeinandi kennsluhætti og markmiðabundið námsmat, skapandi starf og jákvæðan skólabrag í anda skólastefnu Garðabæjar. Unnið er að innleiðingu ,,Uppeldis til ábyrgðar" sem miðar að því að auka sjálfsstjórn nemenda og ábyrgð þeirra á eigin hegðun.

Hofsstaðaskóli