13. apr. 2021

Fengu sófa að gjöf

Að Móaflöt í Garðabæ er rekin skammtímavistun fyrir 32 börn sem eru á aldrinum sex til átján ára. Á dögunum komu meðlimir Kiwanisklúbbanna Setbergs í Garðabæ og Eldeyjar í Kópavogi færandi hendi með sófa að gjöf til heimilisfólks.

  • I.Elín Baldursdóttir forstöðuþroskaþjálfi á skammtímavistuninni, Sigurður Örn Arngrímsson frá Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi, Kristján Jakov Lazarev frá Mosfellsbæ, Jökull Logi Björgvinsson frá Garð
    I.Elín Baldursdóttir forstöðuþroskaþjálfi á skammtímavistuninni, Sigurður Örn Arngrímsson frá Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi, Kristján Jakov Lazarev frá Mosfellsbæ, Jökull Logi Björgvinsson frá Garðabæ og Kristján Gísli Stefánsson frá Kiwanisklúbbnum Setberg í Garðabæ, í sófanum góða.

Að Móaflöt í Garðabæ er rekin skammtímavistun fyrir 32 börn sem eru á aldrinum sex til átján ára en vistunin opnaði sem skammtímavistun fyrir börn með fötlun árið 1998. Skammtímavistun er ætlað að veita fötluðum börnum tímabundna dvöl til tilbreytingar eða til að létta álagi af aðstandendum. Vistunin er því ýmist reglubundin eða veitt til ákveðins tíma og er dvalartíminn breytilegur eftir aðstæðum hvers og eins.

Á dögunum komu meðlimir Kiwanisklúbbanna Setbergs í Garðabæ og Eldeyjar í Kópavogi færandi hendi með sófa að gjöf til heimilisfólks. Sófinn mun eflaust nýtast vel og hefur nú þegar verið mikið notaður. 

Börnin sem dvelja á skammtímavistuninni að Móaflöt eiga lögheimili í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnanesi og Mosfellsbæ. Fimm börn dvelja á heimilinu hverju sinni, frá tveimur sólarhringum upp í fjórtán sólarhringa á mánuði.

Að Móaflöt er veitt sólarhringsþjónusta þar sem markmiðið er að foreldrar fái hvíld og að börnin séu í góðu yfirlæti og líði vel á meðan á dvöl þeirra stendur.