Nýtt meðferðarheimili fyrir börn byggt í Garðabæ
Velferðarráðuneytið, Barnaverndarstofa og Garðabær gera með sér viljayfirlýsingu um sameiginlega uppbyggingu á meðferðarheimili fyrir börn.
-
Undirritun viljayfirlýsingar um meðferðarheimili fyrir börn
Velferðarráðuneytið, Barnaverndarstofa og Garðabær gera með sér viljayfirlýsingu um sameiginlega uppbyggingu á meðferðarheimili fyrir börn. Viljayfirlýsingin var undirrituð utandyra við Vífilsstaðavatn í Garðabæ föstudaginn 21. desember af Ásmundi Einar Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, Heiðu Björg Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu og Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir að Garðabær vinni að því að úthluta Barnaverndarstofu 10 þúsund fermetra lóð á Vífilssstaðahálsi, nánar tiltekið við hlið fyrirhugaðs kirkjugarðs í Rjúpnadal á móts við hesthúsabyggð á Kjóavöllum. Næsta aðliggjandi íbúðabyggð er í vestanverðri Rjúpnahæð í Kópavogi í um 700 metra fjarlægð. Svæðið er skilgreint sem ,,opið svæði“ í aðalskipulagi Garðabæjar en áherslur Barnaverndarstofu eru að meðferðarheimilið verði nálægt byggðarmörkum en þó utan þeirra þannig að sem minnst truflun og áreiti verði fyrir þá mikilvægu en viðvæmu starfsemi sem mun fara þar fram.
Barnaverndarstofa mun annast starfsemi og rekstur meðferðarheimilisins en gert er ráð fyrir að þar verði vistuð ungmenni á aldrinum 15-17 ára sem glíma við hegðunar- og vímuefnavanda. Jafnframt er gert ráð fyrir vistun ungmenna á heimilinu sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald. Velferðarráðuneytið mun tryggja Barnaverndarstofu fjármagn til framkvæmda við byggingu meðferðarheimilisins.
Í framhaldi af undirritun viljayfirlýsingarinnar verður skipaður sameiginlegur starfshópur til að vinna að framgangi málsins en sameiginlegt markmið er að framkvæmdir við meðferðarheimilið geti hafist á árinu 2019.
,,Við erum afskaplega glöð að geta hjálpað til við þetta mikilvæga verkefni. Við vonum svo sannarlega að þetta framtak okkar hjálpi til við að halda utan um þá einstaklinga sem ekki finna sig í okkar flókna samfélagi. Við höfum í Garðabæ lagt mikla áherslu á að skapa góð uppvaxtarskilyrði fyrir börn og ungmenni og þetta verkefni fellur að þeirri hugsun.“ sagði Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Á meðfylgjandi mynd með frétt eru frá vinstri:
Heiða Björg Pálmadóttir forstjóri Barnaverndarstofu, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra og Almar Guðmundsson formaður fjölskylduráðs Garðabæjar.