Nýtt minnismerki um finnsku húsin afhjúpað
Íbúar í Búðahverfi fjölmenntu þegar nýtt minnismerki var afhjúpað á varða sem upprunalega var reistur sem þakklætisvottur fyrir hjálp finnsku þjóðarinnar árið 1973.
Minnismerki um uppruna finnsku húsanna svonefndu í Búðahverfi hefur verið endurnýjað. Upphaflega var minnismerki komið fyrir á stórum steini á milli Ásbúðar og Holtsbúðar eftir að Búðahverfið byggðist upp á áttunda áratugsíðustu aldar. Merkið var sett upp sem þakklætisvottur fyrir hjálp finnsku þjóðarinnar í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973.
Búðahverfið var ekki fullbyggt þegar gaus í Heimaey og fyrir tilstilli Viðlagasjóðs var ákveðið að reisa í hverfinu 35 finnsk timburhús fyrir Vestmanneyinga. Það var svo í ágúst árið 1977 sem Urho Kekkonen þáverandi Finnlandsforseti afhjúpaði minnismerkið í opinberri heimsókn sinni til Íslands. Minnismerkið prýddi steininn í um 20 ár áður en það hvarf sporlaust og hefur ekki fundist síðan.
Í tilefni þess að nú eru 50 ár síðan finnsku húsin voru reist hefur nýju minnismerki á sama steini verið komið fyrir.
Íbúar í hverfinu fjölmenntu þegar nýja minnismerkið var afhjúpað og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar sagði nokkur vel valin orð um uppruna merkisins og húsanna sem reist voru á vegum Viðlagasjóðs.
Sömuleiðis hélt Hilmar Hjartarson, íbúi í Ásbúð, smá tölu en hann hefur búið í viðlagasjóðshúsi frá upphafi eða allt frá því þau voru reist árið 1974. Hann og félagi hans og nágranni, Lárus Lárusson, áttu frumkvæðið að því að minnismerkið yrði endurnýjað á þessum tímamótum.
Hilmar Hjartarson.
Íbúar í Búðahverfi stylltu sér upp fyrir mynd.