25. sep. 2025

Októberbörn fengið boð um leikskólapláss

Innritun í leikskóla Garðabæjar hefur gengið einstaklega vel og nú er komið að októberbörnunum!

Öll börn sem fædd eru í október 2024 hafa fengið boð um leikskólapláss og geta hafið leikskólagöngu þegar þau verða 12 mánaða.

Garðabær hafði þegar boðið börnum sem fædd eru fyrr á árinu leikskólapláss, og hefur því einstaklega vel tekist til þetta árið. Á sama tíma hefur Garðabær unnið markvisst að því að stytta biðlista og bjóða eldri börnum, sem bættust við í sumar, leikskólapláss.

Starfsfólkið lykillinn að góðum árangri

Mönnun leikskólanna gengur ágætlega og í Garðabæ vinnur samhentur hópur starfsfólks sem leggur sig fram við að skapa hlýlegt, öruggt og skapandi umhverfi fyrir börnin. Enn eru þó nokkrar stöður lausar og því eru áhugasamir leikskólakennarar hvattir til að kynna sér fjölbreytt tækifæri á vef Garðabæjar. Þar má meðal annars sjá helstu hlunnindi sem í boði eru fyrir starfsfólk leikskólanna sem eru fjölmörg.

Nokkrar hagnýtar upplýsingar fyrir foreldra

  • Innritun fer fram allt árið og þegar pláss losnar er það boðið næsta barni á biðlista. Boð um leikskólavist er ávallt háð mönnun á leikskólanum.
  • Forgangsröðun fer eftir aldri – þau elstu fá fyrst úthlutað.
  • Umsóknir og samskipti fara í gegnum leikskólakerfið Völu.
  • Foreldrar fá bréf þegar barni er boðið pláss og hafa þá fimm virka daga til að svara.
  • Ef barn er orðið 12 mánaða, hefur fengið pláss en ekki hafið aðlögun, er hægt að sækja um biðlistagreiðslur þar til leikskólagangan hefst.