11. okt. 2023

Ólafur Schram tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Ólafur Schram, tónmenntakennari í Sjálandsskóla í Garðabæ, er tilnefndur fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu, námsefnisgerð og þróunarstarf. Ólafur er einstakur fagmaður með brennandi áhuga á starfi sínu sem á auðvelt með að kveikja áhuga hjá nemendum sínum.

Ólafur er tilnefndur fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu, námsefnisgerð og þróunarstarf.

Ólafur lauk B.Ed gráðu frá Háskóla Íslands 1998 og M.A. prófi frá sama skóla 2016 en meistaraprófsverkefni sitt byggði hann á rannsókn á notkun spjaldtölva við skapandi vinnu í tónmenntakennslu í íslenskum grunnskólum.

Ólafur hefur kennt við grunnskóla, Listaháskólann og á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hann hefur samið námsefni um tónlist sem Menntamálastofnun hefur gefið út og komið að endurskoðun aðalnámskrár. Þá eru ótalin þróunarverkefni sem hann hefur komið að, m.a verkefni um notkun spjaldtölva í tónmenntakennslu (Garðabær 2018–2020).

Ólafur lýsir megináherslum sínum í kennslu meðal annars með þessum orðum: „Mitt helsta markmið í tónmenntakennslu er að skapa aðstæður í tónmenntastofunni svo nemendur með mismikla færni geti stigið inn í heim tónlistarinnar og upplifað galdur hennar í samspili, söng og sköpun.“ Þá leggur hann mikla áherslu á samþættingu tónmenntar við aðrar greinar, en þverfaglegt starf er eitt af einkennum Sjálandsskóla sem hann kennir við nú. Um þetta segir hann: „Með samþættingu fær tónlistin aukna merkingu í huga nemandans á sama tíma og iðkun tónlistar gefur nemendum tækifæri á að tengjast viðfangsefnum með upplifun sem aðrar námsgreinar eiga erfiðara með að veita.“

Í umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu sagði m.a.:

Ólafur hefur starfað við Sjálandsskóla frá því að skólinn tók til starfa og er afar mikilvægur í öllu skólastarfinu. Auk þess að kenna tónmennt í 1.–10. bekk, sér hann um morgunsöng fyrir nemendur 1.–7. bekkjar á hverjum morgni – setur tóninn fyrir daginn. Hann tekur þátt í þemum í öllum árgöngum, leiksýningum, söngleik í unglingadeild, auk þess að stjórna skólakórnum.

Ólafur er einstakur fagmaður með brennandi áhuga á starfi sínu sem á auðvelt með að kveikja áhuga hjá nemendum sínum. Hjá Ólafi fá nemendur að kynnast tónlist á fjölbreyttan hátt, fá að skapa tónlist, læra á hljóðfæri og læra sögu tónlistar. Textar eru krufðir og textar eru samdir. Tungumálin eru skoðuð og jafnvel búið til bullmál. Tónlist er sett í samhengi við sögu, menningu og tíðaranda. Ævintýri verða til.

Auk þess að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir og vera leiðandi í skapandi skólastarf í Sjálandsskóla, nær Ólafur sérlega vel til nemenda með einstakri framkomu, hlýju, húmor og einlægni. Ólafur kemur fram við alla af virðingu og fær það margfalt til baka. Ólafur er einstakur samstarfsmaður, faglegur, hlýr og lausnamiðaður. Nemendur og starfsfólk Sjálandsskóla er heppið að hafa jafn metnaðarfullan, jákvæðan og skemmtilegan kennara eins og Ólaf i sínum röðum.


Námsefni eftir Ólaf: 

 

Hér má svo horfa á nemendur Ólafs í fjórða bekk flytja tvö lög Of Monsters and Men í tengslum við þemaverkefni um Garðabæ, en börnin komust að því að hluti liðsmanna sveitarinnar væri úr bænum! 

Garðabær óskar Ólafi innilega til hamingju með tilnefninguna.