3. okt. 2025

Opnun út á Flóttamannaveg vorið 2026 - Útboð

Vinna við opnun frá Urriðaholti út á Flóttamannaveg er á góðu á skriði og er stefnt að því að hringtorg á mótum Flóttamannavegar og Urriðaholtsstrætis verði komið í gagnið vorið 2026.

Garðabær og Vegagerðin hafa nú auglýst útboð í gerð hringtorgs við gatnamót Flóttamannavegar og Urriðaholtsstrætis. Með þessu verður unnt að opna út á Flóttamannaveginn frá Urriðaholtsstræti.

Verkefnið er hluti af stærri opnun út úr hverfinu og felur í sér fyrsta áfanga opnunar auk lagfæringa á Flóttamannavegi til að tryggja öryggi og bættar samgöngur fyrir íbúa. Hægt er að kynna sér útboðsgögn hér: Gatnamót við Urriðaholtsstræti.

„Þetta er stórt og langþráð skref þar sem við höfum ýtt mjög á þetta mál. Verkefnið er afrakstur mikils samstarfs Garðabæjar og Vegagerðarinnar,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. „Íbúar Garðabæjar hafa kallað eftir þessari opnun lengi, enda snýst þetta ekki síst um öryggi íbúa . Þetta er fyrsti áfanginn í opnun út á Flóttamannaveg og nauðsynlegum lagfæringum á honum.“

Framkvæmdir við gerð hringtorgsins hefjast í haust. Malbikun skal lokið 15. maí og verki að fullu lokið 15. júní 2026.

Garðabær hefur ávallt átt í góðum samskiptum við viðbragðsaðila og útkallsaðila vegna öryggismála í hverfinu. Um þessar mundir er fer fram hönnun á öryggisopnun við Holtsveg sem síðan fer strax í framkvæmd. Þá opnun munu viðbragðsaðilar og aðrir geta nýtt við tilteknar aðstæður.