3. okt. 2018

Öryggismyndavélar í Garðabæ

Alls eru um 130 öryggismyndavélar í notkun við fasteignir Garðabæjar, inni og úti,  og stefnt á áframhaldandi fjölgun þeirra á næstu misserum. 

  • Sjónarhorn úr öryggismyndavél við Garðaskóla
    Sjónarhorn úr öryggismyndavél við Garðaskóla

Í febrúar á þessu ári undirrituðu Garðabær, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínan ohf samkomulag um verklag við kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í Garðabæ. Nú þegar eru umferðaröryggismyndavélar komnar upp við Álftanesveg, rétt hjá hringtorginu við Arnarneshæð og á Vífilsstaðavegi neðan við innkeyrslu að Flataskóla. Stefnt er að því að koma upp umferðaröryggismyndavélum á allt að 10 stöðum í Garðabæ á gildistíma samningsins til loka ársins 2020.

Lögreglan sér um rafræna vöktun

Samkvæmt samkomulaginu er umferðaröryggismyndavélakerfið eingöngu ætlað að þjóna þörfum lögreglu og annarra neyðaraðila. Notkun kerfisins og aðgangur að gögnum úr kerfinu er samkvæmt reglum lögreglu og Persónuverndar. Garðabær sér um að kaupa vélarnar, setja upp og merkja með viðvörunum um rafræna vöktun í samræmi við lög um persónuvernd. Garðabær sér um rekstur vélanna en ekki kerfisins sem er tengt við vélarnar. Lögreglan annast vöktun á myndefninu og tekur ákvörðun um aðgang annarra neyðaraðila að myndefninu. Staðsetning á umferðaröryggismyndavélunum er ákveðin af lögreglu í samráði við Garðabæ og Neyðarlínuna. 

Öryggismyndavélar við fasteignir Garðabæjar

Auk öryggismyndavéla sem hafa verið settar upp í samstarfi við lögreglu og neyðarlínu eru myndavélar í eigu Garðabæjar við fasteignir bæjarins, svo sem við skólabyggingar og í og við almenn rými íþróttahúsa. Alls eru þar um 130 öryggismyndavélar í notkun inni og úti og stefnt á áframhaldandi fjölgun þeirra á næstu misserum.

Mjög strangar reglur gilda um hvað má gera við upptökur úr þessum vélum og þær má einungis afhenda lögreglu eða að fengnu samþykki Persónuverndar. Lögreglan hefur ekki beinan aðgang að öryggismyndavélum stofnanna Garðabæjar en getur eins og áður segir fengið afhentar upptökur úr vélunum ef grunur er um slys eða meintan refsiverðan verknað. Upptökur úr öryggismyndavélum Garðabæjar hafa verið afhentar lögreglu við ýmsar rannsóknir á undanförnum misserum.

Myndefni hjálpar til við lögreglurannsókn

Vegna nýlegrar umræðu á samfélagsmiðlum um öryggismyndavélar við Garðaskóla og íþróttamiðstöðina Ásgarð er rétt að geta þess að þar hafa verið settar upp 6 nýjar vélar í byrjun þessa skólaárs. Nýlegar myndir úr öryggismyndavélum við Ásgarð, sem voru afhentar lögreglu, áttu stóran þátt í að upplýsa mál varðandi þjófnað á vespum.

Á meðfylgjandi mynd með frétt má sjá sjónarhorn úr einni öryggismyndavél sem snýr að útisvæði við Garðaskóla.

Umræða um öryggismyndavélavöktun almennt í bæjarfélaginu hefur verið til umfjöllunar hjá bæjaryfirvöldum á liðnum mánuðum og verður áfram til skoðunar í samráði við íbúa og önnur yfirvöld, s.s. lögreglu. Einnig er rétt að minna á mikilvægi þess að ganga vel frá eigum sínum, t.d. að læsa hjólum og vespum.