Ótal margt skemmtilegt að gera í vetrarfrínu
Dagana 17. - 20. febrúar verður vetrarfrí í leik- og grunnskólum í Garðabæ. Það er ýmislegt skemmtilegt hægt að gera sér til skemmtunar í skólafríinu og hér koma nokkrar hugmyndir.
-
Dagana 17. - 20. febrúar verður vetrarfrí í leik- og grunnskólum í Garðabæ. Það er ýmislegt skemmtilegt hægt að gera sér til skemmtunar í skólafríinu og hér koma nokkrar hugmyndir.
Fjölbreytt dagskrá á bókasafninu
Það verður eitt og annað spennandi í boði á bókasafninu í vetrarfríinu, til dæmis bíósýning, krakkajóga og föndurstund. Boðið verður upp á pop-up dótaskiptimarkað alla dagana. Dagskrána má kynna sér í dagatalinu á vef bókasafnsins.
Barbie í sérhönnuðum fötum í Hönnunarsafninu
Barbie er nýjasti gesturinn á fastri sýningu safnsins Hönnunarsafnið sem heimili. Barbie er íklædd einstökum sérhönnuðum fötum eftir sjö fatahönnuði og við mælum með að kíkja í heimsókn og skoða sköpunarverkin.
Meðan á vetrarfríi stendur verður Smiðjan á Hönnunarsafninu opin. Þar er hægt að gera stærðfræðitilraunir á fræðsluborði Einars Þorsteins Ásgeirssonar eða leika sér með dúkkur og dúkkuhús. Þá má einnig slaka á í Hreiðrinu og blaða í bókum eða tímaritum úr bókasafni Hönnunarsafnsins.
Hönnunarsafn Íslands er til húsa að Garðatorgi 1 og er opið alla daga nema mánudaga frá 12-17. Alltaf er ókeypis aðgangur á safnið fyrir yngri en 18 ára og í vetrarfríinu fá foreldrar einnig ókeypis í heimsókn með börnum.
Ókeypis í sund fyrir yngri en 17 ára
Sundferð klikkar ekki. Það er ókeypis aðgangur í sundlaugar Garðabæjar fyrir yngri en 17 ára. Hér má sjá afgreiðslutíma í Ásgarðslaug og Álftaneslaug.
Hjóla- og gönguleiðir í Garðabæ
Fjölmargar fjölskylduvænar hjóla- og gönguleiðir eru í Garðabæ sem hægt er að njóta í vetrarfríinu. Við mælum með að skoða vefinn Út um allt og fá þannig hugmyndir að skemmtilegum hjóla- eða gönguleiðum í bænum. Vefurinn Út um allt er nýr upplýsingavefur um útivistarmöguleika á höfuðborgarsvæðinu.
Sjá einnig: Áhugaverðar gönguleiðir í Garðabæ
Alltaf stutt í næsta leiksvæði
Í Garðabæ er alltaf stutt í næsta leiksvæði. Er ekki tilvalið að prófa einhvern nýjan og spennandi leikvöll í vetrarfríinu? Við mælum með að kíkja inn á Kortavef Garðabæjar, haka þar við Hagnýtar upplýsingar og svo Leiksvæði og sjá hvar allir leikvellir bæjarins eru staðsettir.
Hjólabrautin
Hjólagarpar geta nýtt sér hjólabrautina fyrir ofan Lundaból, hún er um 440 metrar að lengd og sérstaklega spennandi fyrir orkubolta sem hafa gaman af því að hjóla.
Könnunarleiðangur
Það er af nógu að taka þegar kemur að spennandi útivist í Garðabæ fyrir unga náttúruunnendur. Hvernig væri að skella sér í fjöruferð eða að Vífilstaðavatni og kanna þar lífríkið?
Útilistaverk Garðabæjar
Hér finnið þið upplýsingar um útilistaverk Garðabæjar. Við mælum með að taka göngutúr og kíkja á eitt eða fleiri útilistaverk í vetrarfríinu. Litlir listamenn gæti jafnvel kippt skissubók og litum með og prófað að teikna verkin upp.
Búrfellsgjá
Gönguleiðin um Búrfellsgjá er ákaflega falleg og tilvalin fyrir fjölskyldur. Gangan hefst við bílastæði við Heiðmerkurveg suðaustan við Vífilsstaðahlíð. Nánari upplýsingar og kort af upphafsstað leiðar má finna á vefnum Út um allt.
Frístundabíllinn á sínum stað
Frístundabíll Garðabæjar keyrir samkvæmt áætlun í næstu í vetrarfríinu. Nánari upplýsingar má finna hér.