19. jan. 2024

Páll Ásgrímur er Garðbæingurinn okkar

„Hann er góður drengur sem elskar Garðabæ. Hann er hvetjandi og duglegur að mæta á viðburði og íþróttaviðburði þar sem hann er alltaf til í samtal, heilsar flestum og er alltaf svo jákvæður.“

  • Allur hópurinn saman kominn. Myndir tók Garðapósturinn (VK)

Garðbæingurinn okkar 2023 er Páll Ásgrímur Jónsson, eða Páló eins og hann er alltaf kallaður. Páll fékk fjölmargar tilnefningar frá bæjarbúum Garðabæjar og dómnefnd útnefndi hann í dag.

Í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum frá bæjarbúum kom fram að Páll hefði einstakt lag á því að vera jákvæður og hlýlegur. „Hann minnir okkur á mikilvægi þess að iðka góð samskipti, á gildi góðra samskipta og mikilvægi þess að vera góður samborgari,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

„Hann er góður drengur sem elskar Garðabæ. Hann er hvetjandi og duglegur að mæta á viðburði og íþróttaviðburði þar sem hann er alltaf til í samtal, heilsar flestum og er alltaf svo jákvæður. Hann er mikill gleðigjafi og hefur fallegt og gott hjartalag. Hann nýtir samfélagsmiðla á skemmtilegan hátt til að gleðja fólk og létta lund okkar. Svo klæðir hann sig svo skemmtilega. Hann er algjörlega einstakur, lífgar upp á hversdaginn með jákvæðni sinni og gleði,“ segir í rökstuðningi dómnefndar og í tilnefningum um Pál.


Heiðruð fyrir framlag sitt til Garðabæjar

Fimm aðrir einstaklingar voru einnig heiðraðir fyrir að setja svip sinn á bæjarbraginn.

Kamilla Inga Ellertsdóttir, 14 ára nemandi í 9. bekk í Garðaskóla fékk sérstaka hvatningu sem ung manneskja sem hefur margt fram að færa. Í tilnefningum sem hún fékk kom meðal annars fram:

„ Kamilla hefur starfað og tekið þátt í barnastarfi Vídalínskirkju í nokkur ár. Kamilla er jákvæð, dugleg og glaðvær. Hún gefur mikið af sér bæði í leik og starfi og er upprennandi leiðtogi.“

 

Þær Marija Erdoglilja og Danijela Flipovic starfa hjá Aktu Taktu í gamla Bitabæ og hafa reynst bæjarbúum vel í gegnum tíðina, sýnt einstaka þjónustulund og hlýju.

Í tilnefningum sem þær fengu kom meðal annars fram:

„Þær eru alltaf kátar og glaðar og sýna öllum áhuga og hlýju. Þær koma brosi á öll andlit og eru einfaldlega með hjarta úr gulli.“




Ingunn Aradóttir er starfsmaður Stjörnunnar í Garðabæ og hefur sérstakt lag á að aðstoða börn og fjölskyldur í Garðabæ. Í tilnefningum sem hún fékk kom meðal annars fram:

„Hún hefur reynst fólki afskaplega vel, setur sig í þeirra spor og reynir að leysa úr öllum málum. Hún er alltaf með svör á reiðum höndum og ekkert vandamál er of stórt fyrir hana Ingunni.“

 

 

Laufey Jóhannsdóttir er formaður Félags eldri borgara í Garðabæ, fyrrverandi bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar Garðabæjar. Laufey hefur staðið ötullega að því að byggja upp starf félags eldri borgara í bænum en einnig stutt vel við bakið á úkraínskum flóttamönnum sem sest hafa að í bænum.

Í tilnefningum og rökstuðningi dómnefndar kom meðal annars fram:

„Laufey er heiðruð fyrir framlag sitt til málefna eldri borgara í Garðabæ en starfsemi félags eldri borgara í Garðabæ er öflug og heldur vel utan um hópinn. Hún er óþreytandi í því verkefni að gera tilveruna betri fyrir eldri íbúa Garðabæjar. Laufey hefur að auki tekið þátt í að aðstoða Úkraínska flóttamenn sem hér eiga nú heimili og stutt vel við bakið á þeim í gegnum Lions og reynst þeim vel.“

Garðbæingurinn okkar

Garðbæingurinn okkar var valinn í fyrsta skiptið föstudaginn 19. desember. Hugmyndina að því að velja hann átti Andrea Róbertsdóttir, íbúi í Garðabæ. Með því að útnefna „Garðbæinginn okkar“ erum við að þakka fyrir það sem vel er gert, þakka einstaklingi fyrir sitt framlag, þeim sem eru til fyrirmyndar á einhvern hátt og minna okkur á að við getum öll haft áhrif. Til greina komu Garðbæingar en einnig fólk sem starfar eða dvelur í bænum til lengri eða skemmri tíma og hefur jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt.

Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og 154 tilnefningar voru bornar undir dómnefnd. Dómnefndina skipuðu þau Birna Guðmundsdóttir, íþróttafræðingur, Pétur Jóhann Sigfússon, skemmtikraftur og leikari og Valgerður Eyja Eyþórsdóttir, formaður Ungmennaráðs Garðabæjar.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar voru dómnefnd til halds og traust við athöfnina á föstudag auk þess sem Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari og Kjalar Martinsson, söngvari fluttu nokkur lög.