17. maí 2019

Rafhjól fyrir bæjarstarfsmenn

Tvö ný rafhjól hafa verið keypt fyrir bæjarstarfsmenn til að fara á milli stofnana í því skyni að efla vistvænar samgöngur og lýðheilsu starfsmanna. 

  • Rafhjól fyrir bæjarstarfsmenn tekin í notkun
    Rafhjól fyrir bæjarstarfsmenn tekin í notkun. Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson, Jóna Sæmundsdóttir, Björg Fenger og Gunnar Einarsson

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fyrr í vor var samþykkt tillaga um að kaupa tvö rafhjól sem bæjarstarfsmenn geta notað til að fara á milli stofnana bæjarins á vinnutíma í því skyni að efla vistvænar samgöngur. 

Umræða og áhugi um loftslagsmál hefur stóraukist á Íslandi undanfarin ár og í greinargerð með tillögunni sem var samþykkt í bæjarstjórn kemur fram að með því að efla vistvænar samgöngur í bæjarfélaginu með kaupum á rafhjólum er unnið að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum umferðar hvort sem er vegna hávaða- eða staðbundinnar loftmengunar.  Notkun rafhjólanna mun jafnframt efla lýðheilsu starfsmanna og auðvelda þeim að ferðast hratt og örugglega milli stofnana bæjarins. 

Nú er búið að festa kaup á tveimur rafhjólum fyrir bæjarstarfsmenn.  Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Eiríkur Björn Björgvinsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs, fengu þann heiður að fara í fyrsta hjólatúrinn og með þeim á mynd eru þær Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar, og Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, sem lögðu fram tillöguna í bæjarstjórn um að efla vistvænar samgöngur með þessum hætti.  

Vanir hjólreiðamenn í starfsmannahópi bæjarskrifstofanna hafa aðstoðað við að útbúa hjólin þannig að þau henti til að fara á milli stofnana og verða öðrum samstarfsmönnum innan handar sem eru að læra á rafhjól í fyrsta sinn.

Rafhjól fyrir bæjarstarfsmenn tekin í notkun