30. okt. 2020

Rafhlaupahjólaleiga opnar í Garðabæ

Á Garðatorgi og víðar um bæinn má nú sjá skærgræn rafhlaupahjól sem almenningur getur tekið á leigu. Í vikunni opnaði fyrsta rafhlaupahjólaleigan í Garðabæ. Með tilkomu rafhlaupahjóla- og rafhjólaleigu í Garðabæ aukast enn fremur valkostir íbúa við að velja sér umhverfisvænni samgöngumáta.  

  • Rafhlaupajólaleiga opnar í Garðabæ
    Rafhlaupahjóla og rafhjólaleiga opnar í Garðabæ

Á Garðatorgi og víðar um bæinn má nú sjá skærgræn rafhlaupahjól sem almenningur getur tekið á leigu. Í vikunni opnaði fyrsta rafhlaupahjólaleigan í Garðabæ á vegum fyrirtækisins ,,Oss rafrennur og rafhjól“. Þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar, Kári Jónsson íþrótta-tómstunda- og forvarnarfulltrúi og Guðbjörg Brá Gísladóttir deildarstjóri umhverfis og framkvæmda hjá Garðabæ tóku fyrsta rúntinn á rafhlaupahjólunum á Garðatorgi.

Rafhlaupahjól hafa notið sífellt meiri vinsælda á undanförnum árum bæði hérlendis sem erlendis. Garðabær veitti fyrirtækinu OSS nýverið aðstöðuleyfi fyrir rafhlaupahjólum sem og rafhjólum sem verða staðsett víðs vegar um Garðabæ og hægt er að ferðast á þeim bæði innanbæjar sem og á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Til að leigja hjólin þarf að hlaða niður appi í símann og í appinu er hægt að sjá staðsetningu hlaupahjólanna og rafhjólanna sem eru væntanleg mjög fljótlega. Þar er einnig hægt að fylgjast með hversu mikið sparast af koltvíildi (CO2) eftir hverja ferð miðað við annan óumhverfisvænni samgöngumáta.

Umhverfisvænn samgöngukostur

Í umhverfisstefnu Garðabæjar er eitt af markmiðunum að draga úr aukningu umferðar og þar með neikvæðum umhverfisáhrifum frá umferð. Notkun rafknúinna farartækja hvort sem það eru rafbílar, rafhjól eða rafhlaupahjól verður sífellt algengari meðal íbúa Garðabæjar sem og annara landsmanna enda umhverfisvænir samgöngukostir.

Garðabær hefur lagt mikla áherslu á uppbyggingu góðra göngu- og hjólastíga innanbæjar til að efla vistvænar samgöngur og gangandi og hjólandi umferð hefur aukist mikið að undanförnu. Settir hafa verið upp hjólaviðgerðarstandar fyrir almenning við Garðatorg og við íþróttamiðstöðvarnar í Ásgarði og á Álftanesi. Í bílakjallaranum á Garðatorgi má finna hraðhleðslustöð fyrir rafbíla og við Ásgarð og Álftaneslaug eru hleðslustöðvar. Á þessu ári er verið að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á fleiri stöðum í Garðabæ í samstarfi við Veitur og verða hleðslustöðvar staðsettar við, leikskólann Akra, Sjálandsskóla, Tónlistarskóla Garðabæjar og Hofsstaðaskóla.

Með tilkomu rafhlaupahjóla- og rafhjólaleigu í Garðabæ aukast enn fremur valkostir íbúa við að velja sér umhverfisvænni samgöngumáta.

Rafhjólaleiga opnar í Garðabæ