Rafíþróttanámskeið félagsmiðstöðva Garðabæjar
Námskeiðið er fyrir öll sem hafa áhuga á tölvuleikjum, hver sem reynsla þeirra af tölvuleikjum er. Lögð er áhersla á jákvæða tölvuleikjaspilun, líkamlega og andlega heilsu og liðsheild.
- Fyrir 13-16 ára unglinga í Garðabæ (fædd 2008-2010)
- Fjöldi þáttkanda á hverju námskeiði: 8
- Tímasetningar: 13:30-16:00 eða 16:30-19:00
- Fjöldi skipta: 6 skipti yfir tvær vikur.
Kostnaður: 10.000kr.-
Um námskeiðin
Námskeiðið er fyrir öll sem hafa áhuga á tölvuleikjum, hver sem reynsla þeirra af tölvuleikjum er. Lögð er áhersla á jákvæða tölvuleikjaspilun, líkamlega og andlega heilsu og liðsheild. Á námskeiðinu læra þátttakendur á leikinn Overwatch 2 en hann er fyrstu persónu skotleikur með mikla áherslu á samskipti og samvinnu. Það sem þátttakendur læra er þó auðvelt að yfirfæra á aðra liðaleiki, t.d. Fortnite, Counter-Strike 2 og Valorant.
Tímunum er skipt í tvo megin þætti, hópefli og hreyfingu annars vegar og leikjaspilun hinsvegar. Í hverjum tíma er létt líkamsrækt, samskiptaæfingar, tækniæfingar, stuttur fyrirlestur og leikjaspilun. Við leggjum upp með að kenna þátttakendum að læra af mistökum sínum, hvetja vini sína áfram og að tölvuleikir eiga að vera skemmtilegir og uppbyggilegir.
Spilað verður í PC tölvum. Allur búnaður er á staðnum en þátttakendum er frjálst að koma með sínar eigin græjur ef þeir vilja, t.d. tölvumýs eða heyrnartól. Mikilvægt er að koma í fötum sem má hreyfa sig í og vera með vatnsbrúsa. Overwatch 2 er bannaður innan 12 ára en við mælum þó með að forráðamenn kynni sér alltaf aldursviðmið PEGI fyrir leiki sem börn og unglingar spila.
Um leiðbeinendur
Leiðbeinendur og umsjónarmenn námskeiðsins eru Hrefna Björg og Bjarni Dagur. Bæði hafa lokið þjálfaranámskeiði hjá Rafíþróttasambandi Íslands. Þau hafa mikla reynslu af starfi með börnum og unglingum, Bjarni hefur unnið í Elítunni á Álftanesi í yfir 13 ár, séð um klúbbastarf og haldið nokkur rafíþróttamót og Hrefna starfar í Garðalundi og hefur meðal annars séð um rafíþróttaklúbba og nördaklúbba. Bæði eru þau ötulir tölvuleikjaspilendur, hafa mikinn áhuga á hópastarfi tengdu rafíþróttum og lögðu áherslu á sértækt hópastarf í námi sínu í tómstunda- og félagsmálafræði.
Á námskeiðinu læra þátttakendur:
- Að vinna saman í liði
- Samvinnu og samskipti í liðaleikjum
- Hver munurinn á jákvæðum og neikvæðum samskiptum er
- Hvernig á að skipuleggja æfingar með liði
- Hvernig líkamleg og andleg heilsa hefur áhrif á getu í tölvuleikjum
- Mikilvægi góðrar næringar og hreyfingar
- Virkni íhluta tölvu -hvaða hlutar eru mikilvægir fyrir leikjaspilun og af hverju
- Líkamsræktar æfingar og jóga
Námskeið í boði
Í boði eru fjögur 6 skipta námskeið.
- Námskeið 1: 13:30 -16:00. Dagana 18. - 20 júní og 26. - 28. júní
- Námskeið 2: 16:30 – 19:00. Dagana 18. - 20 júní og 26. - 28. júní
- Námskeið 3: 13:30 -16:00. Dagana 2. – 4. júlí og 10. - 12. júlí.
- Námskeið 4: 16:30 – 19:00. Dagana. 2 - 4 júlí og 10. - 12. júlí.
Skráning fer fram í gegnum netverslun Garðalundar https://www.abler.io/shop/gardalundur/1