31. maí 2019

Rafrænar kosningar í Betri Garðabæ til og með 3. júní

Rafrænar kosningar í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær standa yfir til og með mánudagsins 3. júní. Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu Garðabæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ.

  • Betri Garðabær!
    Betri Garðabær!

Rafrænar kosningar í lýðræðisverkefninu Betri Garðabær eru hafnar og standa yfir til og með mánudagsins 3. júní. Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu Garðabæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. 

 Íbúar sem verða 15 ára (fæddir 2004) á kosningaárinu og eldri, með skráð lögheimili í Garðabæ fá nú tækifæri til að ráðstafa allt að 100 milljónum í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin.

KOSNINGAVEFUR -smellið hér til að fara beint á kosningavefinn.

Verkefnið hófst í mars á þessu ári þegar leitað var til íbúa Garðabæjar um hugmyndir um verkefni til framkvæmda og hugmyndasöfnun stóð yfir í rúmar tvær vikur. Góð þátttaka var í hugmyndasöfnuninni þar sem yfir 300 hugmyndir bárust. Matshópur skipaður starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar fór yfir og vann úr öllum innsendum hugmyndum með aðstoð annarra sviða og ráðgjafa. Nú er búið að stilla upp rafrænum kjörseðli með 27 verkefnum sem hægt er að skoða á kosningavefnum.

Ekki þarf að úthluta öllu fjármagninu – hægt að hjartamerkja uppáhaldshugmyndina

Á kosningavefnum eru 100 milljónir til úthlutunar en ekki þarf að velja verkefni fyrir alla þá upphæð vilji menn bara kjósa tiltekið verkefni. Einnig er kjósendum boðið upp á að hjartamerkja eitt verkefni sem gefur því aukaatkvæði. Þá er mögulegt að greiða atkvæði oftar en einu sinni, en það er nýjasta atkvæðið sem gildir.
Allir geta skoðað kosningavefinn en til að kjósa í lokin þegar búið er að velja hugmyndir þarf að auðkenna sig með öruggum hætti, þ.e. með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Hægt er að kjósa í eigin tölvum eða snjalltækjum en einnig er hægt að koma og nota tölvur í þjónustuveri Garðabæjar og í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og Álftanesútibúi.

Hugmyndir áfram til skoðunar

Fjölmargar góðar hugmyndir bárust í hugmyndasöfnun verkefnisins og þó þær falli ekki allar undir skilyrði Betri Garðabæjar verða þær áfram til skoðunar, m.a. með umfjöllun nefnda þar sem við á. Einnig fóru sumar hugmyndir ekki í kosningu þar sem þegar var búið að ákveða að setja þær á framkvæmdaáætlun. 

Hér á vef Garðabæjar er hægt að sjá lista yfir allar innsendar hugmyndir og þar eru einnig nánari upplýsingar um verkefnið Betri Garðabær.