Rúmlega 100 nemendur og kennarar á gítarhátíð í Tónlistarskóla Garðabæjar
Haldin verður gítarhátíð í Tónlistarskóla Garðabæjar dagana 14. – 16. mars. Áætlað er að um 100 gítarnemendur muni koma saman á hátíðinni til sitja námskeið og æfa saman ásamt því að og spila á lokatónleikum.
Linda Margrét Sigfúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar, er ein þeirra sem sér um skipulag hátíðarinnar. „Gítarhátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Reykjanesbæ og nú er hún haldin hér í Garðabæ í fjórða sinn. Tónlistarskólar hafa skipst á að halda hátíðina og fá þá til sín gestakennara sem halda masterklass-námskeið fyrir lengra komna nemendur. Sá kennari stjórnar svo risastórri gítarsveit á lokatónleikum og spilar einnig á einleikstónleikum fyrir gesti hátíðarinnar,“ segir Linda Margrét.
Í ár er það Arnaldur Arnarson gítarleikari sem verður gestakennari á hátíðinni. Hann er búsettur í Barselóna og kemur sérstaklega til Íslands til að taka þátt í hátíðinni.
„Hátíðin er haldin fyrir gítarnemendur í tónlistarskólum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Að þessu sinni eru sjö skólar sem taka þátt í hátíðinni og samtals rúmlega 100 nemendur og kennarar munu koma í Garðabæinn þessa helgi auk aðstandenda sem mæta á tónleika bæði á laugardaginn og sunnudaginn,“ segir Linda Margrét.
Fjölbreytt dagskrá
Það mun ansi fjölbreytt tónlist óma í skólanum meðan á gítarhátíðinni stendur.
„Hver skóli er búinn að æfa hópatriði fyrir tónleikana og tónlistin er mjög fjölbreytt og skemmtileg. Flutt verða íslensk og erlend lög af ýmsum toga, klassísk tónlist, þjóðlög frá ýmsum löndum, Bítlalög og latíntónlist svo dæmi séu tekin. Svo enda lokatónleikarnir á því að allur hópurinn spilar saman tvö lög og með þeim tekur þátt lítil ritmasveit úr Tónlistarskóla Garðabæjar,“ útskýrir Linda Margrét.
Hún segir bæði skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir nemendur að taka þátt í hátíð sem þessari. „Þetta er skemmtilegt samstarfsverkefni á milli skólanna. Við í Garðabæ erum spennt að taka á móti öllum nemendum, kennurum þeirra og aðstandendum og hlökkum til helgarinnar.“
Lokatónleikarnir eru öllum opnir og er ókeypis inn. Þeir verða haldnir laugardaginn 15. mars klukkan 16:00 í Vídalínskirkju.