13. nóv. 2020

Saman gegnum kófið

Á fræðsluvefnum "SAMAN GEGNUM KÓFIÐ" eru kynnt uppbyggileg bjargráð og leiðir til að vinna með það álag sem er yfirstandandi vegna heimsfaraldurs COVID-19

  • Saman gegnum kófið
    Saman gegnum kófið - mynd fengin af fræðsluvef Landspítala

Sérfræðingar geðþjónustu og mannauðsmála á Landspítala hafa sett í loftið fræðsluvefinn "SAMAN GEGNUM KÓFIÐ". Þar eru kynnt uppbyggileg bjargráð og leiðir til að vinna með það álag sem er yfirstandandi vegna heimsfaraldurs COVID-19 og forðast það sem til lengri tíma hefur neikvæðar afleiðingar fyrir líðan og heilsu. Á vefsvæðinu er að finna margvíslegt fræðsluefni, góð ráð, tengla og leiðbeiningar fyrir fólk sem vill passa upp á sig sjálft og styðja aðra næstu vikur og mánuði.

Vefsvæðið ,,SAMAN GEGNUM KÓFIÐ er á ytri vef Landspítalans og er aðgengilegt öllum.

Efni fyrir alla - sjálfshjálp - aðstoð og þjónusta

Þrátt fyrir að efnið sér sniðið að þörfum starfsfólks Landspítala, þá er megnið af því með þeim hætti að það á að gagnast hvaða vinnustað sem er og almenningi öllum. Það er von Landspítala að bæði starfsfólk og almenningur hafi af efninu gagn af efninu. Þar er til dæmis að finna efni fyrir stjórnendur og fyrir starfsfólk sem vinnur að heiman.

Sumt af efninu á vefsvæðinu er ætlað til sjálfshjálpar, annað er til að benda á aðstoð og þjónustu sem er boðin, á spítalanum og víðs vegar í samfélaginu. Stöðugt er unnið að umbótum á vefsvæðinu og nýtt efni bætist jafnt og þétt við.