16. mar. 2022

Sameiginleg yfirlýsing um samstarf vegna sorphirðu

Fulltrúar sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um samstarf vegna sorphirðu á dögunum í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi. 

  • Á myndinni eru frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Gunnar Einarsson formaður stjórnar SSH og bæjarstjóri Garðabæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Regína H Guð
    Á myndinni eru frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Gunnar Einarsson formaður stjórnar SSH og bæjarstjóri Garðabæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Regína H Guðbjörnsdóttir staðgengill sveitarstjóra Kjósarhrepps, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Bjarni Torfi Álfþórsson staðgengill bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, Arnar Jónsson staðgengill bæjarstjóra Mosfellsbæjar. Ljósmynd: HAG.

Fulltrúar sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um samstarf vegna sorphirðu á dögunum í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir samræmdu sorphirðukerfi við heimili og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Undanfarna mánuði hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) unnið að undirbúningi á slíku og var skýrsla starfshóps um samræningu og sérsöfnun nýlega kynnt.

„Umhverfið okkar er að gjörbreytast. Við sjáum loks fram á samræmda flokkun og sjáum fram á uppbyggingu á grænum klasa og sorpbrennslu fyrir úrgang sem ekki er hægt að flokka,“ sagði Gunnar Einarsson, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og bæjarstjóri Garðabæjar, við undirritunina og fagnaði þeirri samstöðu og framsækni sem sveitarfélögin hafa sýnt í verki. „Það mun mjög margt spennandi gerast á næstu árum. Við þetta bætist markmið ríkisstjórnarinnar um að vera í fremstu röð á sviði loftslagsmála. Þetta eru spennandi tímar en líka flóknir og samstaða okkar sveitarfélaganna er mikilvæg til að tryggja að þessi markmið náist.“

Gunnar leggur áherslu á mikilvægi fræðsluhlutverks SORPU og sveitarfélaganna þegar kemur að nýja sorphirðukerfinu. „Það er aðdáunarvert að sjá hvernig verkefnahópurinn ávarpaði þann hluta í skýrslu sinni,“ segir Gunnar.

Fjórir flokkar af sorpi og möguleiki á tvískiptum tunnum

Með yfirlýsingunni sammælast sveitarfélögin um að innleiða eitt sorphirðukerfi á höfuðborgarsvæðinu og sérsöfnun á lífrænum úrgangi. Í nýja sorphirðukerfinu er lagt til að fjórum úrgangsflokkum verði safnað við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu. Úrgangsflokkarnir eru:

• Lífrænn eldhúsúrgangur
• Blandað heimilissorp
• Pappír og pappi
• Plastumbúðir

Kerfið er í samræmi við þær breytingar sem taka gildi á lögum um söfnun á úrgangi við heimili um áramótin og er að Norrænni fyrirmynd. Við tillögugerð að hönnun kerfisins var haft að leiðarljósi að breytingarnar verði eins þægilegar og einfaldar fyrir íbúa og mögulegt er og verða tvískiptar tunnur í boði við heimili þar sem pláss er af skornum skammti. Þegar um tvískiptar tunnur er að ræða verður lífrænum eldhúsúrgangi og blönduðum úrgangi safnað í sitthvort hólfið í sömu tunnunni og plastumbúðum annars vegar og pappír og pappa hins vegar verður safnað í aðra tvískipta tunnu.