Samfélagið í Garðabæ stendur saman vörð um börn í viðkvæmri stöðu
Fulltrúar helstu þjónustuaðila barna í Garðabæ undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um samhæfðar aðgerðir til stuðnings börnum í viðkvæmri stöðu. Samhliða var haldin vinnustofa þar sem saman kom fagfólk frá Garðabæ, embætti sýslumanns og lögreglu- og heilbrigðisþjónustu og unnu þátttakendur að tillögum sem eiga að efla gæði þjónustu við börn og fjölskyldur í Garðabæ.
-
Fulltrúar helstu þjónustuaðila barna í Garðabæ undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um samhæfðar aðgerðir til stuðnings börnum í viðkvæmri stöðu. Samhliða var haldin vinnustofa þar sem saman kom fagfólk sem vann að tillögum sem eiga að efla gæði þjónustu við börn og fjölskyldur í Garðabæ. Alls tóku 120 manns þátt í vinnustofunni.
Á vinnustofu sem haldin var í Garðabæ, um börn í viðkvæmri stöðu undirrituðu fulltrúar helstu þjónustuaðila barna í Garðabæ samstarfsyfirlýsingu um samhæfðar aðgerðir til stuðnings börnum í viðkvæmri stöðu. Með yfirlýsingunni er stigið mikilvægt skref í átt að þverfaglegu og samræmdu verklagi sem miðar að snemmtækri íhlutun og bættri þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.
Að samstarfsyfirlýsingunni komu Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Halla Bergþóra Björnsdóttir hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Dóra Magnúsdóttir hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, og Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ.


„Samræmd nálgun og samvinna milli okkar allra er grundvöllur þess að þjónusta við börn verði samfelld og árangursrík,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
„Við leggjum áherslu á gagnsæi, samráð og faglega samvinnu allra sem koma að málefnum barna. Það er mikilvægt að börnin í samfélaginu okkar finni að þau tilheyri og að þau og fjölskyldur þeirra viti hvert þau eiga að leita. Við stöndum klár þegar þess þarf.“
Markmið samstarfsins
Með samstarfsyfirlýsingunni skuldbinda Garðabær, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Sýslumaðurinn, Heilsugæslan og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ sig til að:
- Efla upplýsingaflæði og samráð milli stofnana
- Styrkja snemmtæka íhlutun og samræmt verklag
- Styðja börn og fjölskyldur þeirra með samþættri þjónustu
- Vinna áfram og ávalt með það markmið að leiðarljósi að draga úr ofbeldi, vanrækslu og áhættuhegðun meðal barna og ungmenna
Samstarfið byggir á ákvæðum barnaverndarlaga og stefnu stjórnvalda um farsæld barna. Það felur í sér aukna samhæfingu á milli lykilaðila sem koma að málefnum barna innan sveitarfélagsins, með það að markmiði að stuðla að heildstæðri og skilvirkri þjónustu.


Alls tóku 120 manns þátt í vinnustofunni, þar sem saman kom fagfólk frá Garðabæ, embætti sýslumanns og lögreglu- og heilbrigðisþjónustu. Þáttakendur unnu saman að tillögum sem eiga að samhæfa verklag, skýra ábyrgðarskiptingu og efla samfellu og gæði þjónustu við börn og fjölskyldur í Garðabæ. Framlag þátttakenda er því afar mikilvægur liður í þessu stóra verkefni.
Fundinn ávörpuðu Marta Kristín Hreiðarsdóttir fyrir hönd lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, María Draumey Kjærnasted fyrir hönd Ungmennaráðs Garðabæjar og Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sem lokaði deginum. Fundarstjóri var Sigríður Hulda Jónsdóttir.

