14. sep. 2018

Samgönguvika í Garðabæ

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert.

  • Samgönguvika 2018
    Samgönguvika 2018

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert.

Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. Þema átaksins í ár er Veljum fjölbreyttan ferðamáta og því eru allir hvattir til þess að reyna að spara akstur og ganga eða hjóla þessa daga.

Garðabær tekur að sjálfsögðu þátt í Samgönguviku líkt og fyrri ár.

Samgönguvikan hefst á degi náttúrunnar þar sem kjörið er að skoða eitt af mörgum útivistarsvæðum Garðabæjar.

Mánudaginn 17. september eru Garðbæingar svo hvattir til þess að skilja einkabílinn eftir heima og ganga eða hjóla í vinnuna sem og alla vikuna.

Miðvikudaginn 19. september verður farið í lýðheilsugöngu kl. 18:00. Þá er mæting í Heiðmörk, á nýja bílastæðið við Búrfellsgjá/Selgjá. Vígsla verður á nýju fræðsluskilti um Selgjá og mun Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur, leiða göngu um svæðið.

Fimmtudaginn 20. september verður athygli vakin á nýjum strætóskýlum sem nýlega voru  tekin í notkun en þau eru staðsett á Vífilstaðavegi við Garðatorg og á Bæjarbraut við FG.

Föstudaginn 21. september verður áttunda ráðstefna Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðamanna haldin undir heitinu Hjólum til framtíðar. Ráðstefnan verður haldin í félagsheimilinu á Seltjarnarnesi kl. 10 en hjólað verður frá Bakarameistaranum í Suðurveri kl 9 á ráðstefnuna.

Að endingu verður svo frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu á frídegi bílsins, 22. september. Við hvetjum Garðbæinga til að nýta sér möguleikann og skilja einkabílinn eftir heima þennan dag.

Nánar má lesa um Evrópska samgönguviku á evrópskum vef átaksins, www.mobilityweek.eu.