Samkomulag um framtíðarþróun Vífilsstaða undirritað
Garðabær og íslenska ríkið hafa undirritað samkomulag um framtíðarþróun Vífilsstaða. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu samkomulagið og þar með hefur næsta skref verið stigið að heildstæðri enduruppbyggingu svæðisins.
Garðabær og íslenska ríkið hafa undirritað samkomulag um framtíðarþróun Vífilsstaða. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs Íslands, undirrituðu samkomulagið og þar með hefur næsta skref verið stigið að heildstæðri enduruppbyggingu svæðisins.
Meginmarkmiðið er að skapa aðlaðandi umhverfi þar sem þjónustutengd starfsemi mun laða að mannlíf og virkni inn á svæðið og tengjast starfsemi skóla og stofnana.
„Við viljum hefja Vífilsstaði aftur til vegs og virðingar og samkomulagið í dag endurspeglar það. Það er mikilvægt að vanda til verka við skipulag svæðisins, þar sem sögulegar byggingar og falleg náttúra í grennd þurfa að njóta sín. Það fyrsta sem gerist er að fjósið svokallaða og svæðið umhverfis það fer í söluferli og þar verður tækifæri fyrir öfluga aðila að hefja starfsemi sem laðar að sér fjölbreytt og gleðiríkt mannlíf,“ segir Almar Guðmundsson um samkomulagið sem var undirritað í dag.

Markar kaflaskil
Árið 2017 var gengið frá samningi milli ríkissjóðs og Garðabæjar um sölu á Vífilsstaðalandinu til sveitarfélagsins og markar nýtt samkomulag tímamót í þróun svæðisins.
Fyrr á árinu var starfshópur skipaður um skipulag og enduruppbyggingu Vífilsstaða. Vífilsstaðaland í heild sinni nær yfir stórt landsvæði, um 202 hektarar, en vinna starfshópsins var hins vegar afmörkuð við Vífilsstaðareit svokallaðan. Tillaga hópsins er að fyrst um sinn verði áhersla lögð á enduruppbyggingu bygginga á Spítalavegi 1-3, sem hýstu m.a. fjós og hlöðu áður fyrr, en áformað er að selja þær. Horft verði til þess að húsin á svæðinu verði endurgerð í upprunalegri mynd, eftir atvikum í samráði við Minjastofnun.

Í tillögum hópsins er m.a. lagt til að svæðið í kringum Fjósið og Búshús verði afmarkað og vinna sett strax af stað til að deiliskipuleggja það sem verslunar- og þjónusturými. Áætlað er að deiliskipulagsvinnu fyrir þann reit verði lokið vorið 2026.
Samhliða verði farið í úthlutun byggingarréttar á reitum í grennd við þær. Þá verður farið í niðurrif illa farinna húsa á reitnum og endurgerðum yfirlæknisbústað fundið hlutverk. Meðfram þessum breytingum mun Garðabær hefja vinnu við heildarskipulag svæðisins.

Almar Guðmundsson, Daði Már Kristófersson og Margrét Bjarnadóttir forseti bæjarstjórnar að undirritun lokinni.
