21. jan. 2025

Samningur um kaup á LED-lömpum undirritaður

Garðabær hefur undirritað samning við Ískraft um kaup á LED-lömpum vegna endurnýjunar á gatna- og stígalýsingu og nýrra framkvæmda. Svæðið sem lamparnir eru ætlaðir í samanstendur af opnum svæðum, göngustígum, húsagötum og safn- og tengigötum.

  • Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Ragnar Martensson Lövdahl, vörustjóri á lýsingarsviði Ískraft, undirrituðu samninginn í Sveinatungu, fundarsal Garðabæjar.

Garðabær hefur undirritað samning við Ískraft um útvegun LED-lampa fyrir eldri hverfi Garðabæjar og einnig í ný hverfi sem verið er að reisa. Auglýst var eftir tilboði í verkið í október 2024 og bárust níu tilboð. Tilboð Ískraft, kr. 169.918.028, var 69,33% undir kostnaðaráætlun Garðabæjar.

Lögð var sérstök áhersla á myrkurgæði, þ.e.a.s. að draga úr óþarfa ljósmengun, við val á lömpum þar sem ljósi er beint að jörðu og alfarið er forðast að lýsa upp fyrir staurahæð eða á nærliggjandi mannvirki. Lamparnir eru ætlaðir fyrir fimm til tíu metrar háa staura og eru ætlaðir á ýmist göngustíga, opin svæði, safngötum, húsagötum og safn- og tengigötum.