13. feb. 2019

Samstarf Urriðaholtsskóla og Rannsóknarstofu í atferlisgreiningu

Urriðaholtsskóli og Rannsóknarstofa í atferlisgreiningu hjá Háskóla Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um faglega innleiðingu raunprófaðra kennsluaðferða.

  • Undirritun samnings um innleiðingu raunprófaðra kennsluaðferða
    Frá vinstri: Una Guðrún Einarsdóttir, Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir og Þorgerður Anna Arnardóttir

Urriðaholtsskóli í Garðabæ og Rannsóknarstofa í atferlisgreiningu hjá Háskóla Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um faglega innleiðingu raunprófaðra kennsluaðferða. Þar á meðal innleiðingu í Urriðaholtsskóla á aðferðunum stýrðri kennslu (Engelman´s Direct Instruction) og fimiþjálfun sem byggir á kennsluaðferðinni Precision Teaching. Litið er til þess að efla samstarf kennara sem hlotið hafa þjálfun í aðferðunum og stuðla að fræðslu í samfélaginu um stýrða kennslu og fimiþjálfun.

Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir prófessor við HÍ, Þorgerður Anna Arnardóttir skólastjóri Urriðaholtsskóla, Una Guðrún Einarsdóttir aðstoðarskólastjóri Urriðaholtsskóla og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir sérkennslustjóri í Urriðaholtsskóla og sérfræðingur í aðferðunum undirrituðu samning sem gerður er til fimm ára og gildir út skólaárið 2023.

Um er að ræða skref til að efla tengsl Urriðaholtsskóla við fræðasamfélagið og fræðasamfélagsins við vettvang leik- og grunnskóla. Samningurinn gildir um samskipti og samvinnu beggja stofnanna um kennslu, rannsóknir og þjálfun kennara á sviði raunprófaðra kennsluaðferða.