17. okt. 2019

Samstarfssamningur GKG og Garðabæjar

Garðabær og Golfklúbbur Garðabæjar og Kópavogs (GKG) skrifuðu undir samstarfssamning í lok september sl. um uppbyggingu félags- og íþróttamiðstöðvar GKG.

  • Undirskrift samstarfssamnings GKG og Garðabæjar
    Frá vinstri: Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Guðmundur Oddsson formaður GKG og Agnar Már Jónsson framkvæmdastjóri GKG.

Garðabær og Golfklúbbur Garðabæjar og Kópavogs (GKG) skrifuðu undir samstarfssamning í lok september sl. um uppbyggingu félags- og íþróttamiðstöðvar GKG.

Í viljayfirlýsingu Garðabæjar og GKG frá árinu 2018 er lýst yfir sameiginlegum vilja til að gera bráðabirgðaæfingasvæði ásamt því að byggja við núverandi félags- og íþróttamiðstöð GKG til mótvægis við skerðingu æfingasvæðisins. GKG hefur undanfarið unnið að undirbúningi framkvæmda við bráðabirgðaæfingasvæði ásamt hönnun viðbyggingar félags- og íþróttamiðstöðvar. Samhliða því hefur verið unnið að gerð kostnaðaráætlunar og öðrum verkefnum í tengslum við framkvæmdirnar. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar sl. vor var svo samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hnoðraholts og Vetrarmýrar vegna stækkunar á byggingareit fyrir viðbygginguna.

Bráðabirgðaæfingasvæði og ný viðbygging við félags- og íþróttamiðstöð GKG

Byggt verður bráðabirgðaæfingasvæði á núverandi æfingasvæði. Slegið verður af sama stað og áður og nýtileg aðstaða notuð áfram.

Viðbyggingin við núverandi félags- og íþróttaaðstöðu GKG verður hönnuð á grundvelli forsagnar og þarfagreiningar sem unnin hefur verið af stjórn GKG og öðrum stjórnendum klúbbsins með aðstoð sérfræðinga en heildarstærð viðbyggingarinnar verður um 800 fm. á einni hæð. Á svæðinu verða 16 golfhermar, púttsvæði ásamt þjónustu- og veitingasvæði. Æfingaaðstaðan mun nýtast börnum og unglingum sem stunda skipulagðar golfæfingar á vegum GKG, afrekskylfingum klúbbsins sem og almennum félagsmönnum.

Áætlaður heildarkostnaður vegna viðbyggingarinnar er um 375 milljónir króna. Garðabær mun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 tryggja fjármagn til framkvæmda með fjárveitingum sem dreifast á árin 2019-2023.