Samstarfssamningur við Golfklúbbinn Odd
Á dögunum gerðu Golfklúbburinn Oddur og Garðabær með sér samstarfssamning um að efla barna og unglingastarf í golfi í Garðabæ.
-
Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Kári Sölmundarson formaður golfklúbbsins Odds og Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdastjóri golfklúbbsins Odds.
Á dögunum gerðu Golfklúbburinn Oddur og Garðabær með sér samstarfssamning um að efla barna og unglingastarf í golfi í Garðabæ. Tilgangur samningsins er að efla barna og unglingastarf í golfi innan Garðabæjar með markvissu starfi Odds á félagssvæði sínu.
Félagið skal við framkvæmd samningsins huga sérstaklega að því að mæta þörfum fatlaðra barna og ungmenna í samræmi við stefnu Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks. Stjórn ber ábyrgð á að félagið innleiði og starfi samkvæmt leiðbeiningum og verklagsreglum um kynferðislegt áreiti. Félagið skal setja upp áætlanir varðandi eineltismál og njóta samvinnu við Garðabæ um fræðslu og viðbrögð við þeim. Þar skal byggt á forvarnastefnu bæjarins þar sem m.a. kemur fram áhersla á að uppræta og vinna gegn einelti, finna fyrirbyggjandi lausnir og auka samvinnu allra uppeldisaðila til að uppræta einelti í skólum og félagsstarfi í Garðabæ.
Garðabær gerir þær kröfur að leiðbeinendur/þjálfarar séu með tilskilda þekkingu eða menntun í þeirri íþróttagrein sem stunduð er. Leiðbeinendur og þjálfarar þurfa aðundirrita samning við félagið um að vera til fyrirmyndar í stundvísi, framkomu og annan hátt er að íþróttinni lýtur.