23. júl. 2020

Samstarfssamningur við Klifið

Garðabær og Klifið hafa gert með sér samstarfssamning um tómstundastarf barna og unglinga í Garðabæ.

  • Undirritun samnings við Klifið
    Undirritun samstarfssamnings við Klifið. Frá vinstri: Eiríkur Björn Björgvinsson, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, Ágústa Guðmundsdóttir stofnandi Klifsins, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Ásta Sölvadóttir, stjórnarformaður og stofnandi Klifsins, Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir forstöðumaður Klifsins.

Garðabær og Klifið hafa gert með sér samstarfssamning um tómstundastarf barna og unglinga í Garðabæ. Samningurinn var undirritaður í lok júní í aðstöðu Klifsins á Garðatorgi 7. Í samningnum er kveðið á um að Klifið skuli bjóða börnum og unglingum skipulagt tómstundastarf undir leiðsögn vel menntaðra leiðbeinenda. Garðabær styður við Klifið með samkomulagi um afnot af húsnæði og með fjárframlagi auk þess að miðla upplýsingum um starfsemina t.d. á vef bæjarins.
Við framkvæmd samningsins er tekið fram að huga sérstaklega að því að mæta þörfum fatlaðra barna og ungmenna í samræmi við stefnu Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks og að starfið skuli skipulagt með þarfir og hagsmuni allra kynja í samræmi við jafnréttisáætlun, einnig ber að taka tillit til forvarnarstefnu bæjarins og setja upp áætlun varðandi eineltismál.

Fjölbreytt tómstundanámskeið, mennta- og menningarstarf

Klifið hefur á undanförnum árum boðið upp á fjölbreytt tómstundanámskeið fyrir börn jafnt sem fullorðna þar sem aðaláherslan hefur verið á skapandi starf, t.d. í vísindum, tækni, myndlist, tónlist, sviðslist, dans og hreyfingu. Námskeiðin hafa farið fram á mismunandi stöðum innan Garðabæjar, aðallega í skóla- og íþróttahúsnæði bæjarins.

Í samstarfssamningi Garðabæjar og Klifsins er einnig ákvæði um að Klifið skuli vera vettvangur fyrir verkefni sem tengjast menningu, menntun og frístundum í samráði við Garðabæ og aðra menningar- og frístundastarfsemi í sveitarfélaginu. Klifið heldur einnig utanum vefverkefnastjórn Menntaklifsins. Menntaklifið er þekkingartorg fyrir þróun og miðlun þekkingar og reynslu þvert á skóla, skólastig, félög og stofnanir í Garðabæ.

Hugsjónafélagið Klifið

Félagasamtökin Klifið er hugsjónafélag sem er ekki rekið í hagnaðarskyni (non-profit association). Hugmyndafræði Klifsins byggir á eflandi kennslufræði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntunar og kenningum um hæfniþróun. Í Klifinu hafa verið þróaðar hugmyndir og gerðar tilraunir í samstarfi við leiðbeinendur, fagfélög og menntastofnanir.

Upplýsingar um Klifið og starfsemi þess má finna á vef Klifsins, klifid.is.