26. ágú. 2019

Samstarfssamningur við Stjörnuna

Þann 2. júlí síðastliðinn samþykkti meirihluti bæjarráðs að endurnýja samstarfssamning milli Garðabæjar og UMF Stjörnunnar og var samningurinn undirritaður þann 15. ágúst sl. 

  • Samstarfssamningur Garðabæjar og Stjörnunnar
    Samstarfssamningur Garðabæjar og Stjörnunnar

Þann 2. júlí síðastliðinn samþykkti meirihluti bæjarráðs að endurnýja samstarfssamning milli Garðabæjar og UMF Stjörnunnar og var samningurinn undirritaður þann 15. ágúst sl. Samningurinn gildir út árið 2022 en í honum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslu á íþróttastarfi í Garðabæ.

Samkvæmt samningnum skal Stjarnan hafa það að markmiði í starfsemi sinni að bjóða börnum og unglingum skipulagt íþróttastarf undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda þar sem lýðheilsa og forvarnargildi íþrótta er höfð að leiðarljósi. Jafnframt skal félagið hlúa að keppnis- og afreksíþróttafólki þannig að það geti náð sem bestum árangri. Garðabær skal á móti styðja við fjárhagslegan rekstrar- og starfsgrundvöll félagsins með samkomulagi um afnot á íþróttamannvirkjum og beinum fjárframlögum.

Samstarfssamningurinn felur í sér gagnkvæmt traust milli aðila og viðurkenningu á því faglega starfi sem fram fer hjá Stjörnunni. Jafnframt er þar að finna skýran ramma um samskipti og upplýsingaskyldu til bæjarins um ráðstöfun fjárframlaga.