30. nóv. 2021

Samstarfssamningur við Taflfélag Garðabæjar

Á dögunum gerðu Taflfélag Garðabæjar og Garðabær með sér samstarfssamning um að efla barna og unglingastarf í skák í Garðabæ.

  • Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Páll Sigurðsson formaður og Sindri Guðjónsson
    Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Páll Sigurðsson formaður og Sindri Guðjónsson

Á dögunum gerðu Taflfélag Garðabæjar og Garðabær með sér samstarfssamning um að efla barna og unglingastarf í skák í Garðabæ. Garðabær greiðir þannig Taflfélaginu árlega styrki sem skal nota í barna og unglingastarf.

Með samningnum er lagður grunnur að öflugu barna- og unglingastarfi á vegum félagsins með skipulögðum æfingum eða námskeiðum og útbreiðslustarfi í grunnskólum bæjarins. Að auki getur félagið haldið úti skákæfingum fullorðinna.

Garðabær gerir þær kröfur að leiðbeinendur/þjálfarar séu með tilskilda þekkingu eða menntun í þeirri íþróttagrein sem stunduð er. Leiðbeinendur og þjálfarar þurfa að undirrita samning við félagið um að vera til fyrirmyndar í stundvísi, framkomu og annan hátt er að íþróttinni lýtur.

Félagið skal við framkvæmd samningsins huga sérstaklega að því að mæta þörfum fatlaðra barna og ungmenna í samræmi við stefnu Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks. Þá skal félagið setja upp áætlanir varðandi eineltismál og njóta samvinnu við Garðabæ um fræðslu og viðbrögð við þeim. Þar skal byggt á forvarnastefnu bæjarins þar sem m.a. kemur fram áhersla á að uppræta og vinna gegn einelti, finna fyrirbyggjandi lausnir og auka samvinnu allra uppeldisaðila til að uppræta einelti í skólum og félagsstarfi í Garðabæ.

Á vef Taflfélags Garðabæjar má finna nánari upplýsingar um starfsemina.