Sannkölluð jólastemning á aðventuhátíð Garðabæjar
Aðventuhátíð Garðabæjar fer fram á laugardaginn og að venju er ýmislegt skemmtilegt á dagskrá, eitthvað fyrir alla fjölskylduna.
-
Aðventuhátíð Garðabæjar fer fram á laugardaginn og að venju er ýmislegt skemmtilegt á dagskrá, eitthvað fyrir alla fjölskylduna.
Aðventuhátíð Garðabæjar fer fram á laugardaginn og að venju er ýmislegt skemmtilegt á dagskrá, eitthvað fyrir alla fjölskylduna.
Á Garðatorgi 7 verður jólaball sem hefst á söng Barnakórs Vídalínskirkju undir stjórn Jóhönnu Guðrúnar og Ingvars Alfreðssonar. Þá taka jólasveinar við stjórn og dansað verður í kringum jólatréð. Jólaballið hefst klukkan 14:15 með söng barnanna og lýkur svo rétt fyrir klukkan 15:00 þegar Birgitta Haukdal og Ljónsi koma fram á Bókasafninu.
Skapandi smiðjur fara fram á Hönnunarsafni Íslands og á Bókasafni Garðabæjar en grafískir hönnuðir leiða báðar smiðjur.
„Við elskum öll æskuminningarnar sem tengjast jólaböllum, að dansa og syngja með jólasveinum í kringum risastórt jólatré. Á Garðatorgi 7 er ansi hátt til lofts og jólatré í miðju rými sem skapar einmitt þessa réttu stemningu fyrir gesti á öllum aldri“ segir Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar.
Svo gefst fólki tækifæri til að versla jólagjafir á pop-up markaði sem stendur frá klukkan 11-16 á göngugötunni og á hönnunarmarkaði í Hönnunarsafni Íslands sem stendur frá 12-17 en auk þess taka verslanir á Garðatorgi vel á móti fólki.
Að venju lýkur Aðventuhátíðinni með leik Blásarasveitar Tónlistarskóla Garðabæjar við jólatréð klukkan 15.30.

„Aðventan er ein af þessum hefðbundnu hátíðum sem við viljum hafa notalega stemningu og njóta með fólkinu okkar. Dagskráin á Garðatorgi er einmitt miðuð við þetta, að fjölskyldan geti átt notalega stund saman, upplifað og skapað,“ segir Ólöf að lokum.
Tónlistarnæring með aðventubragði
Miðvikudaginn 3. desember klukkan 12:15 mun tónlistarhópurinn Voces Thules flytja aðventudagskrá á tónlistarnæringu í Tónlistarskóla Garðabæjar. Hópurinn samanstendur af fimm tónlistarmönnum sem syngja og leika á hin ýmsu hljóðfæri.
Að vanda er aðgangur ókeypis og öll velkomin.