Sérstök móttaka fyrir fyrrverandi starfsfólk
Garðabær býður starfsfólki sem hætt hefur störfum á bæjarskrifstofunni sökum aldurs í sérstaka móttöku á vorin og hefur það verið gert frá árinu 2017.
Að vori ár hvert býður Garðabær starfsfólki sem hætt hefur störfum á bæjarskrifstofum Garðabæjar sökum aldurs og mökum þeirra í sérstaka móttöku. Þetta hefur verið gert frá árinu 2017 við góðar undirtektir.
Núverandi starfsmönnum bæjarskrifstofu er einnig boðið í móttökuna enda er oftar en ekki um fyrrum samstarfsmenn einhverra úr heldri manna hópnum að ræða.
„Mér ásamt fyrrverandi bæjarstjóra þótti mikilvægt á sínum tíma að reyna með einhverjum hætti að halda tengslum við starfsmenn sem hætta sökum aldurs og heyra frá fyrstu hendi um þau spennandi verkefni þau eru að fást við,“ segir Inga Þóra Þórisdóttir, mannauðsstjóri Garðabæjar.
Inga segir einnig gaman fyrir fyrrverandi starfsmenn að heyra og sjá hvaða verkefni samstarfsfélagarnir sem enn eru við störf hjá Garðabæ eru að fást við og hvaða breytingar hafa orðið og eru hugsanlega í farvatninu.
Í síðustu móttöku, sem fram fór fimmtudaginn 8. maí sl., var byrjað á að fara í rútuferð með leiðsögn Almars Guðmundssonar bæjarstjóra um bæinn. Þá var m.a. farið um Hnoðraholt, Vífilsstaði og Vetrarmýri, einnig um Rjúpnadal þar sem farið var yfir fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu.
Til gamans má geta þess að þessi árlega móttaka bæjarskrifstofu var hvati að því að heldri manna hópurinn hóf fyrir nokkrum árum að hittast reglulega og fá sér hádegishressingu saman á veitingastað í Garðabæ. Erla Bil Bjarnadóttir, fyrrverandi umhverfisstjóri bæjarins, hefur verið drifkraftur í því skipulagi og hvetur til mætingar. Hópurinn kallar sig Hætt á Bæjó.