Skapandi sumarstörf í Garðabæ
Skapandi sumarstörf eru nú komin vel af stað og starfið um það bil hálfnað. Í skapandi sumarstörfum gefst ungu og hæfileikaríku fólki að vinna að sínum eigin skapandi verkefnum yfir sumartímann.
-
Dansgjörningur frá verkefninu Ómleik á Garðatorgi
Skapandi sumarstörf eru nú komin vel af stað og starfið um það bil hálfnað. Í skapandi sumarstörfum gefst ungu og hæfileikaríku fólki að vinna að sínum eigin skapandi verkefnum yfir sumartímann.
Í sumar vinna 11 einstaklingar að listsköpun og menningartengdri starfsemi í bænum en um er að ræða bæði einstaklings- og hópaverkefni sem snúa að tónlist, myndbandagerð, gjörningalist, dansi, ritlist, myndlist og hreyfimyndagerð.
Framundan eru viðburðir á vegum verkefnanna víðsvegar um bæinn. Sameiginleg uppskeruhátíð allra verkefna verður svo fimmtudaginn 25. júlí á Garðatorgi. Aðgangur er ókeypis og eru bæjarbúar sem og aðrir hvattir til að koma og fagna skapandi sumarstörfum.
Viðburðir á næstunni
11. júlí - Gálgahraun
Íris setur upp málverk á striga í Gálgahrauni.
17. júlí - Garðatorg 1
Íris sýnir skúlptúra og teikningar úr verkefni sínu “Barn gæti gert þetta”.
23. júlí - Bókasafn Garðabæjar
Thelma les upp úr bók sinni, Friðarheimur fjölbreytileikans, fyrir leikskólabörn á Bókasafni Garðabæjar.
23. júlí kl. 17:00-20:00 - Garðatorg 1
Ygglist frumsýnir vídeóverk sem er afrakstur listrænnar rannsóknar á ljótleikanum. Viðburðurinn verður í sal á Garðatorgi 1. Inngangur er við hlið Hönnunarsafns Íslands.
24. júlí kl. 19:30 - Tónlistarskóli Garðabæjar
Anna Katrín heldur fiðlutónleika í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Á efnisskránni eru m.a. verk eftir Bach, Beethoven og Jón Nordal.
25. júlí kl. 17-20 - Uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.