27. júl. 2022

Skólamálsverðir í grunn- og leikskólum Garðabæjar 2022-2025

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í vor að bjóða út framleiðslu og framreiðslu á mat fyrir alla grunnskóla Garðabæjar og hluta af leikskólum bæjarins fyrir tímabilið 2022-2025. Þriðjudaginn 26. júlí undirritaði bæjarstjóri Garðabæjar samninga við Skólamat annars vegar og Matartímann hins vegar um þessa þjónustu til næstu þriggja ára.

  • Frá vinstri: Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamats, Axel Jónsson eigandi Skólamats, Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar
    Frá vinstri: Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamats, Axel Jónsson eigandi Skólamats, Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í vor að bjóða út framleiðslu og framreiðslu á mat fyrir alla grunnskóla Garðabæjar og hluta af leikskólum bæjarins fyrir tímabilið 2022-2025. Hægt var að gera tilboð í einn eða fleiri skóla en um var að ræða 5 grunnskóla, 3 leikskóla og einn grunn- og leikskóla, alls með um 2600 nemendur.

Alls bárust tilboð frá þremur aðilum þar af voru tveir aðilar sem skiluðu tilboði í alla hluta útboðsins og einn aðili í þrjá hluta. Eftir yfirferð tilboða í júní var niðurstaðan sú að ganga til samninga við tvo aðila, annars vegar Matartímann og hins vegar Skólamat í þær stofnanir sem viðkomandi buðu lægst í. Við yfirferð tilboða var m.a. fengin næringarráðgjafi til að yfirfara tilboðin með tilliti til þess hvort þau uppfylltu kröfur útboðsins varðandi næringarinnihald, samsetningu máltíða, innihald og eldunaraðferðir. Þar var meðal annars skoðað hvort tekið væri mið af opinberum ráðleggingum Embættis landlæknis, hvort boðið væri upp á sérmatseðil fyrir annars vegar grunnskóla og hins vegar leikskóla, hvernig upplýsingar væru um meðlæti á matseðli og hvort í boði væri grænkerafæði (þótt það hafi ekki verið tiltekið í útboðslýsingu).

Þriðjudaginn 26. júlí undirritaði bæjarstjóri Garðabæjar samninga við Skólamat annars vegar og Matartímann hins vegar um þessa þjónustu til næstu þriggja ára. ,,Það er afar ánægjulegt að þrír aðilar hafi boðið í þjónustuna og að við fengum hagstæð tilboð í skólamálsverði í grunn- og leikskóla bæjarins. Það sem skiptir áfram mestu máli er að bjóða upp á góða þjónustu við börn með heilsusamlegu fæði og bæði fyrirtækin sem nú er samið við uppfylla þær kröfur. Ég vænti því mikils af samstarfinu við báða aðila þar sem byggt er á fyrri reynslu og góðu samstarfi við Skólamat en jafnframt verður spennandi að fá inn nýjan aðila eins og Matartímann til að þróa og byggja upp samstarf við.“ sagði Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar við undirritun samninganna.

Á mynd fyrir neðan: Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna f.h. Matartímans og Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna f.h. Matartímans og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar

Samningur við Matartímann

Garðabær gerir nú í fyrsta sinn samning við Matartímann um mat í skóla bæjarins. Matartíminn er fyrirtæki í eigu Sölufélags garðyrkjumanna sem sérhæfir sig í þjónustu við mötuneyti með sérstakri áherslu á leik- og grunnskóla.
Máltíðir samkvæmt samningi við Matartímann 2022-2025 eru í eftirfarandi leik- og grunnskólum:

  • ·Flataskóli
  • Garðaskóli
  • Sjálandsskóli
  • Urriðaholtsskóli
  • Leikskólinn Mánahvoll
  • Leikskólinn Bæjarból

Samningur við Skólamat

Garðabær hefur góða reynslu af samvinnu við Skólamat en það fyrirtæki hefur áður séð um skólamálsverði í grunnskólum Garðabæjar skv. útboði. Skólamatur ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum.
Máltíðir samkvæmt samningi við Skólamat 2022-2025 eru í eftirfarandi leik- og grunnskólum:

  • Hofsstaðaskóli
  • Álftanesskóli
  • Leikskólinn Sunnuhvoll