22. okt. 2020

Skólasaga á Álftanesi

Skólahald á Álftanesi á sér langa sögu en í ár eru liðin 140 ár í samfelldri skólasögu á Álftanesi. Í síðustu viku, fimmtudaginn 15. október sl., var haldið upp á það afmæli í Álftanesskóla. 

  • Myndlistarsýning í tilefni af 140 ára skólasögu á Álftanesi
    Myndlistarsýning í tilefni af 140 ára skólasögu á Álftanesi

Skólahald á Álftanesi á sér langa sögu en í ár eru liðin 140 ár í samfelldri skólasögu á Álftanesi.  Í síðustu viku, fimmtudaginn 15. október sl., var haldið upp á það afmæli í Álftanesskóla. 

Á hverju hausti vinna nemendur skólans umhverfisverkefni er nefnist ,,Lesið í nesið" og á þessu ári var það unnið samhliða verkefnum sem tengjast afmælishátíð skólans. Gestum og gangandi var af því tilefni boðið að koma og skoða myndlistarsýningu utandyra þar sem búið var að setja upp verk eftir nemendur í öllum gluggum skólans á 1. hæð. 

Skólahald á Álftanesi

Skólahald á Álftanesi á sér langa sögu en á 19. öld var þar helsta menntastofnun þjóðarinnar Bessastaðaskóli. Fyrsti barnaskóli hreppsins tók til starfa 1914 en það var barnaskólinn á Bjarnastöðum. Áður hafði barnafræðsla í hreppnum farið fram í lítilli skólastofu á Bessastöðum sem Grímur Thomsen hafði upphaflega lánað til þeirra þarfa. Næsta stóráfanga í skólastarfi í Bessastaðahreppi var svo náð árið 1978 þegar nýr skóli, Álftanesskóli, tók við af Bjarnastaðaskólanum sem þá hafði sinnt sínu hlutverki í 64 ár. Álftanesskóli hefur síðan þá verið stækkaður í nokkrum áföngum með ört vaxandi sveitarfélagi.

Uppbygging Álftanesskóla

Árið 1993 hóf hreppsnefnd Bessastaðahrepps undirbúning að uppbyggingu Álftanesskóla til þess að mæta auknum kröfum nýrra grunnskólalaga en með þeim var ábyrgð á grunnskólanum flutt á herðar sveitarfélaga 1995. Fyrst voru byggðar nokkrar kennslustofur til viðbótar og 1997 er stærri stjórnunarálma byggð við skólann, með bókasafni og tveimur bóknámsstofum. Framkvæmdum vegna einsetningar grunnskólans lauk haustið 1998. Í næsta byggingaráfanga árið 2000 stækkaði skólahúsið upp á tvær hæðir í norðvestur með litlum fjölnota sal, verknámsstofum, fimm almennum kennslustofum og sér list- og verkgreinahúsi.

Árið 2004 var hafinn undirbúningur að heilstæðum grunnskóla á Álftanesi með kennslu í 8. - 10. bekk skólans, félagsmiðstöð og viðbótarhúsnæði fyrir Tónlistarskóla Álftaness. Skólahúsið er hækkað um 3. hæðina og lengt 2005. Nýjasta viðbygging skólans og tenging við íþróttamiðstöðina var tekin í notkun  haustið 2020.