19. ágú. 2020

Upphaf skólastarfs veturinn 2020-2021

Skólasetning grunnskóla í Garðabæ verður mánudaginn 24. ágúst.  Í vetur verða um 2500 nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Garðabæjar og 240 börn hefja nám í 1. bekk.

Skólasetning grunnskóla í Garðabæ verður mánudaginn 24. ágúst. Í vetur verða um 2500 nemendur í 1.-10. bekk í öllum grunnskólum Garðabæjar, þeim sem Garðabær rekur sem og í einkaskólum. Alls eru það 240 börn sem hefja nám í 1. bekk og þeim hópi hefur verið boðið að dvelja á tómstundaheimilum skólanna dagana áður en skólastarf hefst til að kynnast nýju umhverfi, húsnæði, skólalóð og starfsfólki skólanna.

Staða í grunnskólum bæjarins hvað varðar mönnun og ráðningar er góð og vel hefur gengið að fá kennara og annað starfsfólk til starfa. Í undirbúningi fyrir skólastarf vetrarins hafa skólar boðið starfsfólki fjölbreytt námskeið en nokkrum námskeiðum þurfti að fresta vegna reglna um fjöldatakmarkanir.  Engu að síður hafa verið haldin fjölbreytt endurmenntunarnámskeið fyrir kennara og annað starfsfólk, meðal annars námskeið í upplýsingatækni og smáforritum, skyndihjálp, útikennslunámskeið og námskeið um námsáætlanir og endurmat. Einnig sat starfsfólk önnur áhugaverð námskeið t.d. námskeiðin "Ég er unik", "Uppeldi til ábyrgðar" og "Uppbygging sjálfsaga" sem munu án efa nýtast þeim í skólastarfi vetrarins.

Frekari upplýsingar um skólastarfið má finna á vefsíðum grunnskóla Garðabæjar . Þar má sjá hvenær bekkir mæta í skólasetningu og leiðbeiningar um það hverjir mæta á þær miðað við leiðbeiningar sóttvarnayfirvalda. Í framhaldinu verður kennt samkvæmt stundaskrá.

Framkvæmdir við skóla

Unnið hefur verið að margvíslegum úrbótum við skóla Garðabæjar í sumar. Ný viðbygging við Álftanesskóla hefur verið afhent og verður tekin í notkun í skólabyrjun. Þá eru lóðaframkvæmdir við Flataskóla í fullum gangi þar sem verið er að endurgera austurlóð skólans, ráðgert er að þeirri framkvæmd ljúki um eða eftir miðjan september. Framkvæmdir standa yfir á snyrti- og kaffiaðstöðu starfsfólks Garðaskóla. Þá hefur gólfið í íþróttahúsinu á Álftanesi verið endurnýjað og unnið hefur verið að endurbótum á íþróttahúsinu Mýrinni. Í Urriðaholtsskóla er verið að standsetja list- og verkgreinastofur.  Lausar kennslustofur hafa svo verið settar upp við Alþjóðaskólann í Þórsmörk.

Hringtorgið við Vífilsstaðaveg

Í sumar hafa staðið yfir framkvæmdir við nýtt hringtorg við Vífilsstaðaveg og ganga þær mjög vel. Verktakar leggja allt kapp á að vera búnir með sem allra mest áður en skólinn hefst. Gönguleiðir að Flataskóla verða tryggðar með girðingum ef þarf og götulýsingin verður komin upp fyrir skólabyrjun. Gert er ráð fyrir að lokafrágangi á svæðinu í kringum hringtorgið og við göngustíga ljúki í september.