23. jún. 2025

Skrifa og setja upp leikrit í skapandi sumarstörfum

Skapandi sumarstörf eru nú komin á fullt flug. Listakonurnar Guðrún Ágústa, Katrín Ýr og Tinna Margrét eru meðal þeirra sem eru í skapandi sumarstörfum hjá Garðabæ í sumar og vinna nú að því að setja upp leikrit.

Skapandi sumarstörf eru nú komin á fullt flug en í þeim störfum gefst ungu og hæfileikaríku fólki tækifæri til að vinna að sínum eigin skapandi verkefnum yfir sumartímann. Listakonurnar Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir, Katrín Ýr Erlingsdóttir og Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir eru meðal þeirra sem eru í skapandi sumarstörfum hjá Garðabæ í sumar og vinna nú að því að setja upp leikrit.

„Verkið hverfist um vináttu þriggja kvenna, þeirra Huldu Lífar, Röggu Beck og Sunnevu Óskar, sem kynntust á menntaskólaárunum. Nokkrum árum síðar, þegar þær standa allar á krossgötum í einkalífinu, hittast þær á mánaðarlegu kokteilakvöldi heima hjá Röggu. Allar hafa þær leyndarmál og erfiðleika að fela en mála á sig grímu og láta sem líf þeirra sé fullkomið. Þegar borðið er orðið stappfullt af tómum glösum og ómur raddanna hefur hækkað heltekur samanburður og afbrýðisemi vinkonurnar og hlutir sem væru betur látnir ósagðir koma upp á yfirborðið. Hlutir sem margir hverjir höfðu verið bældir niður síðan á menntaskólaárunum,“ segir Guðrún Ágústa um umfjöllunarefni sýningarinnar.

Hún segir verkið draga upp mynd af mikilvægi og dýpt vinkvennasambanda ásamt því að varpa ljósi á þá erfiðleika sem geta fylgt því að vera á þrítugsaldrinum. „Verkið málar upp ljótleika manneskjunnar með litum afbrýðiseminnar, samanburðar og óöryggis en einnig með litum fegurðarinnar sem felst í berskjöldun, hreinskilni og skilningi,“ bætir hún við.

Stefna á frumsýningu um miðjan ágúst

Um þessar mundir eru þær aðallega að einblína á handritaskrif. „Samhliða því erum við einnig að leiklesa og prófa okkur áfram á gólfi til að hjálpa okkur að finna einlægni og hversdagsleika í taltextunum.“

Verkið munu þær svo sýna í Ríósalnum sem er á efri hæð Garðatorgs 1, þær stefna á frumsýningu í byrjun september.

„Við munum auglýsa frekar í ýmsum fjölmiðlum í sumar en einnig á samfélagsmiðlum, t.d. á Instagram og TikTok undir nafninu Fuglabjarg og á Facebook undir Leikfélagið Fuglabjarg ,“ segir Guðrún Ágústa og hvetur áhugasama til að fylgjast með.