15. nóv. 2022

Slökkviliðsmenn hvetja fólk til að efla eldvarnir á heimilunum

Eldvarnaátak slökkviliðsmanna um allt land hófst í gær. Slökkviliðsmenn hvetja fólk til að efla eldvarnir á heimilunum.

  • Eldvarnarátak slökkviliðsmanna var sett í Sjálandsskóla.
    Eldvarnarátak slökkviliðsmanna var sett í Sjálandsskóla.

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst í gær með heimsókn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í Sjálandsskóla í Garðabæ. Þar ræddi Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra við börnin í 3. bekk um mikilvægi eldvarna fyrir öryggi heimilanna. Þá fór fram rýmingar- og björgunaræfing og starfsfólk og gestir fengu þjálfun í notkun slökkvitækja.

Slökkviliðsmenn um allt land taka í kjölfarið þátt í átakinu sem beinist að því að efla eldvarnir á heimilum til að vernda líf, heilsu og eignir fólks.

Slökkviliðin beina fræðslu um eldvarnir að nemendum í 3. bekk grunnskóla og fjölskyldum þeirra. Lögð er áhersla á að heimili séu búin eldvarnabúnaði á borð við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi:

  • Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum.
  • Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið.
  • Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi.
  • Tryggja þarf öllum á heimilinu að minnsta kosti tvær flóttaleiðir.
  • Allir þekki neyðarnúmerið, 112, líka börnin.

Að jafnaði fer Eldvarnaátakið þannig fram að slökkviliðsmenn heimsækja skóla um land allt og ræða við börnin í 3. bekk um eldvarnir. Veirufaraldurinn kom víða í veg fyrir heimsóknir í skóla á árunum 2020 og 2022 en nú er gert ráð fyrir að slökkviliðsmenn fari í skólana.

Börnin í Sjálandsskóla fengu í gær að sjá teiknimyndina um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg. Þau fá eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins, endurskinsborða frá Neyðarlínunni, 112, og fleira.

Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Eldvarnamiðstöðin, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og önnur slökkvilið í landinu.

Hér má sjá frétt RÚV um Eldvarnarátakið.

Eldvarnarátak slökkviliðsmanna var sett í Sjálandsskóla.

Eldvarnarátak slökkviliðsmanna var sett í Sjálandsskóla.